07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í C-deild Alþingistíðinda. (3149)

82. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Ólafur Thors:

Jeg ætla ekki að svara almennum fullyrðingum og staðhæfingum hv. þm. Ísaf. um, hvað valda muni andstöðu minni til þessa frv. Það eru sömu getsakirnar og svívirðingarnar, sem þessi hv. þm. lætur sjer sæma að drótta að andstæðingum sínum yfirleitt. Jeg legg á móti frv. af því að það er skömm fyrir hv. d. að það skuli fram komið, enda er frá því gengið á þá leið, að engu er líkara en að vitfirringur hafi samið það.

Frumvarpsómynd þessi er aðeins ein gr. og þó er ekki einn einasti stafur af viti í henni, þegar hún er krufin til mergjar.

Í fyrsta lagi er frv. vindhögg út í loftið, eins og hv. flm. hefir nú játað í seinni ræðu sinni.

Í öðru lagi kemur fram í frvgr. alvarlegt misrjetti, og í þriðja lagi er með frv. verið að beina landhelgisgæslunni inn á hættulega braut, með því að senda öðrum þjóðum slíka hólmgönguáskorun. Hv. flm. virðist ekki hafa hugsað málið betur en það, að hann hefir þegar við 1. umr. málsins játað ýmsa annmarka á frv. þessu, og ætti hann því að hugsa málið betur þangað til hann fer á stúfana til frekari aðgerða. Skal jeg nú sýna honum fram á, hvað einstök ákvæði í frv. þessu eru óskýr og illa hugsuð, og vil jeg þá með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr því, til frekari sönnunar. Þar segir svo: „Öllum er bannað að selja sekum, erlendum veiðiskipum eða umboðsmönnum þeirra veiðarfæri í sömu veiðiför og þau hafa gerst brotleg við lög þessi.“ Þessi ákvæði eru bæði óskýr og illa hugsuð. Hvað meinar hv. flm. með sömu veiðiför? Jeg hefði haldið, að skipið byrjaði þegar nýja veiðiför, er dómur væri fallinn og það ljeti úr höfn, og þá er fyrirmælið gagnslaust. Þá vil jeg víkja nánar að því ákvæði, að ef íslenskt skip verður brotlegt, skal það kyrsett í höfn í 10 daga. Þetta er hugsunarvilla. Það nær ekki nokkurri átt að það eigi að hegna útgerðarfjelögum fyrir það, að menn, sem eru í þeirra þjónustu fari inn fyrir landhelgilínuna, þótt hv. þm. segi, að það sje ekki nema mátulegt á þá. Hvernig í ósköpunum eiga útgerðarmenn að hafa það á tilfinningunni þegar þeir ráða til sín menn, hvort þessi eða þessi muni fá sekt fyrir landhelgisbrot, meðan hann er í þeirra þjónustu. Ekki geta þeir fundið það á lyktinni, ef svo mætti segja, hvort þeir verði brotlegir eða ekki. (HG: Borga skipstjórarnir sektina?) Já, auðvitað. Og hvers eiga hásetar að gjalda? Þeir missa atvinnu. Og hvað um þá, sem lifa á eyrarvinnu og fiskverkun? Og hvað um sjálfan ríkissjóðinn? Allir þessir aðilar tapa við kyrsetningu skipanna, og hefir þó enginn þeirra til sakar unnið. Slík löggjöf sem þessi er ekki aðeins heimskuleg og gagnslaus, hún er hættuleg og skaðleg. Því enda þótt hún í reyndinni bitni ekki á nágrannaþjóðunum, verður hún þó talin reiddur hnefi. Við verðum að minnast þess, að við erum ekki eina stórveldi heimsins, þótt við sjeum kannske miklir að okkar eigin áliti. Hitt er annað mál, að við eigum að halda fram rjetti okkar með fullri einurð og festu, en við verðum að forðast alla ósanngirni.