23.03.1929
Neðri deild: 30. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

95. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þetta frv. samkv. tilmælum bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum, og skal jeg þá í fáum orðum skýra helstu ástæðurnar, sem til þess liggja.

Eins og kunnugt er, þá hefir á undanförnum árum verið unnið að hafnargerð í Vestmannaeyjum, og hefir þar við mikla örðugleika verið að etja. Í fyrra sumar var unnið að því að gera syðri hafnargarðinn tryggan, en þó jafnhliða unnið að því með miklum dugnaði að fullgera nyrðri garðinn. En þó að syðri garðurinn væri mikið treystur í fyrra, þá tókst samt stórsjóunum í vetur að vinna á honum, svo hann þarfnast nú allmikillar viðgerðar. Hefir verkfræðingur athugað skemdirnar og telur vel kleift að bæta þær. Er því áætlunin í sumar að ljúka við nyrðri garðinn og að bæta skemdir syðri garðsins, og má þá vænta, að þessu mannvirki verði að mestu lokið.

En inni í sjálfri höfninni er ekki byrjað á neinum mannvirkjum enn. Að vísu hefir verið unnið þar að dýpkun. Það hefir „Uffe“ annast eitt sumar, og með aðstoð kafara hefir verið tekið upp talsvert af grjóti, sem valdið hefir trafala á innsiglingarleiðinni, og það grjót hefir komið að góðu haldi við hleðslu hafnargarðanna. En þessu starfi verður að halda áfram, til þess að bæta innsiglinguna í höfnina.

Inni í sjálfri höfninni þrengist jafnt og þjett. Mótorbátum fjölgar stöðugt og stærri skip bætast í flotann. Í vetur voru keypt 4 gufuskip ásamt stærri mótorbátum, og telur nú fiskiflotinn um 100 vjelbáta auk gufuskipanna. En sökum þess hvað fiskibátaflotinn er orðinn stór, þá eru þrengslin í höfninni óbærileg og valda margskonar trafala. Er því óhjákvæmilegt að hefjast handa um meiri lendingarbætur, enda hugmynd hafnarnefndar, að byrjað sje þegar á næsta sumri að byggja bryggju innan hafnarinnar fyrir vjelbáta til þess að afferma sig við, og hefir vitamálastjóri verið þar með í ráðum.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mikið lengur, enda er komið fram yfir venjuleg fundarslit. Jeg vil aðeins geta þess, að með frv. er stj. heimilað að veita fje til þessa mannvirkis, þegar það er fyrir hendi, og hefi jeg ekkert við það að athuga, enda er það í samræmi við þá breyt., sem gerð var á þinginu í fyrra á frv. því, er þá var borið fram um sama efni. Jeg sje ekkert því til fyrirstöðu að hafa þetta sem heimildarlög; hæstv. stj. hefir í viðtali við mig talið sig vilja styðja að því að koma hafnarmannvirkjunum í bærilegt horf. Og í því trausti er farið fram á þessa heimild, að hæstv. stj. taki hana til greina.

Vestmannaeyjar eru dýrmætur hluti í eigu landsins, og höfnin verður að vera vönduð, en ekki verður hjá því komist, að hún verði nokkuð dýr. En í ríkissjóð renna tekjur og skattar úr Vestmannaeyjum, sem nema á ári um 600 þús. króna. Þess vegna vænti jeg, að Alþingi vilji styðja að því, að sem allra fyrst megi takast að koma þessum mannvirkjum í það horf, að höfnin geti fullnægt þeirri þörf, sem henni er ætlað að gera. En til þess þarf margfalt fje við það, sem hjer er farið fram á, enda verður verið að vinna að þessum umbótum í mörg ár.

Að svo mæltu vænti jeg, að frv. fái að ganga til 2. umr. og þá til sjútvn.