07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í C-deild Alþingistíðinda. (3150)

82. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jóhann Jósefsson:

Landhelgislöggjöfin íslenska er viðurkend fyrir að vera strangari og harðari heldur en samskonar löggjöf annara þjóða, bæði hvað peningasektir snertir og önnur ákvæði. Þegar þessi lög voru sett, árið 1920, var það svo, að hjer var þá aðeins eitt danskt herskip, sem landhelgigæslu hafði á hendi, en þó var það hjer ekki alt árið. Á undanförnum árum hafa komið fram kvartanir frá þeim þjóðum, sem mest hafa orðið fyrir barðinu á okkur í þessum efnum, að sektirnar væru of háar, og ákvæðin yfirleitt of ströng. Á þessu tímabili, þar á jeg við árin 1920–1927, hefir þessum þjóðum verið bent á, af stjórn vorri, að við Íslendingar yrðum að hafa ákvæðin strangari en aðrir, því að við hefðum engin tök á að verja landhelgi okkar sem skyldi. Mjer er líka kunnugt um, að aðrar þjóðir hafa gengið inn á, að það yrðu að liggja þungar refsingar við þessum brotum, þar sem þjóðin gæti ekki varið landhelgi sína til fulls. M. ö. o., sektarákvæðin og önnur ströng ákvæði löggjafar þessarar áttu að bæta Íslendingum það upp, að þeir gátu ekki varið landhelgi sína.

Nú ber þess að gæta, að aðstaðan, hvað þetta snertir, hefir breyst. Hin danska gæsla hefir ekki verið rýrð, en við höfum líka eignast okkar eigin strandvarnarskip, og þarf þá ekki annað en að benda á, hve margir voru teknir á árunum 1925–28, og bera það það saman við fyrri árin til að sjá, hversu mjög gæslunni hefir fleygt fram. Jeg vil benda á það, að samkvæmt því, er haldið hefir verið fram af hálfu Íslendinga til málsbóta hörðum ákvæðum gildandi landhelgilöggjafar, á aukið eftirlit ekki að hafa þær afleiðingar, að strangari ákvæðum verði beitt. Síðan „Óðinn“ tók til starfa, hefir mikið dregið úr togaratökum, og er þó tiltölulega skammur tími síðan. Það er mikill munur á eftirliti nú og 1926, en það sýnir, hvaða verkanir lögin hafa haft, að nú liggja fyrir sárfá mál, en áður voru þau vanalega fleiri tugir um þetta leyti. Landhelgigæslan er strangari og togararnir eru búnir að fá nóg af sektum, og eftirlitið hefir borið þann ávöxt, að nú eru tiltölulega fá skip tekin fyrir landhelgibrot. Af þessum orsökum er það sýnilegt, að það þarf ekki skerpandi ákvæði, sú ástæða fellur burtu eftir að eftirlitið batnar, enda hefir reynslan sýnt, að hegningarákvæði núgildandi laga eru nægilega ströng. Nú liggur fyrir frv. til laga frá hv. þm. Ísaf., er miðar að því að skerpa ákvæðin að mun, og færa löggjöfina út á þá braut, sem jeg hygg, að við ættum að forðast í lengstu lög. Jeg játa það, að jeg mun hafa aðra rjettarmeðvitund en hv. þm. Ísaf., enda get jeg ekki sjeð, að rjett sje að leggja menn í einelti eftir að þeir eru búnir að bæta fyrir brot sitt samkvæmt dómi. Sá maður, sem hefir orðið fyrir þessu óhappi, á samkvæmt skoðun hv. þm. að sæta banni og vera óalandi og óferjandi, eins og siður var í grárri forneskju, en þetta er algerlega ósamrýmanlegt venjulegri rjettarmeðvitund.

Hv. þm. Ísaf. hefir þar vonandi þá sjerstöðu, sem nægileg er til þess að hann og fylgifiskar hans verði einangraðir með þessa skoðun sína og tillögur.

Þótt þetta mál fari til sjútvn. býst jeg við, að hún verði að snúa sjer til þeirrar nefndar, sem hefir með utanríkismálin að gera, og að hún verði að láta álit sitt uppi um málið, áður en tekin verður nokkur fullnaðarákvörðun um það. Sje tilgangur frv. að meina þeim, er í sekt hafa fallið, að halda áfram veiði, þótt búið sje að bæta fyrir brot þeirra, eða tefja fyrir þeim á einhvern hátt, má slá sölu veiðarfæranna á frest um óákveðinn tíma. Þetta er algerlega á valdi íslenskra yfirvalda, og þarf engin ný lagafyrirmæli til þess. Um fiskinn er alt öðru máli að gegna, því að hann liggur undir skemdum og verður því að seljast strax. Vilji ríkisstjórnin hinsvegar ekki láta selja veiðarfærin, má fresta því um óákveðinn tíma. En það virðist engin ástæða til að selja ekki veiðarfærin, því að ef þau eru ekki seld því nær strax, verða þau oftast nær verðlaus fyrir landhelgisjóð. Þetta er ekkert aðalatriði, en jeg vil aðeins benda á það, því að hv. flm. benti á þann kostnað, sem væri við landhelgigæsluna, og því væri það ekki vert fyrir sjóðinn að afsala sjer þeim tekjum, sem frekast er hægt að fá fyrir upptækan afla og veiðarfæri. Þá hefir verið á það bent, að með því að halda veiðarfærunum óseldum mætti hindra skipin í því að stunda veiðar. Þetta er hinn mesti misskilningur, því að hin útlendu skip myndu fá lánuð veiðarfæri hjá fjelögum sínum, og halda svo áfram veiðum, eins og ekkert hefði í skorist. Þetta hefir þráfalt komið fyrir, af ýmsum ástæðum og myndi verða venja, ef fyrirmæli frv. þessa yrðu lögfest.

Jeg drap á það áðan, hverjar höfuðástæður við Íslendingar færðum fram fyrir hinni ströngu löggjöf til þess að sýna öðrum þjóðum, að hennar væri full þörf. Útlendingar, t. d Þjóðverjar og Englendingar, hafa svo viljað rannsaka hvernig lögum þessum væri framfylgt, og sú kynning, er þeir hafa fengið af framkvæmd löggjafarinnar af varðskipum landsins og af dómurum þess, hefir ennþá ekki orðið til þess að kasta rýrð á okkur í þeirra augum. Þessir sendimenn hafa bæði talað við dómarana, sem hjer eiga hlut að máli, og foringja varðskipanna, og munu þeir hafa sætt sig fyllilega við framkvæmd þessara laga, að gerathuguðu máli, enda hafa þeir oftast kannast við það með þögninni að minsta kosti, að togararnir væru rjettilega dæmdir, og ekki hafa þeir sjeð þess nokkurn vott, að útlendir skipstjórar hafi verið eltir á röndum og ofsóttir, eftir að dómi hefir verið fullnægt. Sú stefna væri líka í algerðu ósamræmi við þann grundvöll, sem ríkisstjórnin hefir lagt, þegar hún hefir skýrt lögin fyrir útlendingum. Að herða ákvæði þessara laga væri líka í algerðu ósamræmi við gerðir þingsins 1926, því að þá þótti því tilhlýðilegast að lækka hlerasektir til að gera lögin mannúðlegri, þ. e. hlerasektir, sem stafa af ólöglegum umbúnaði veiðarfæra, sem ekki stendur í sambandi við fyrirhugað eða framið fiskiveiðabrot.

Þetta mál fer nú að sjálfsögðu til nefndar, en jeg er þess fullviss, að það þarf að athugast gaumgæfilega. Sjerstaklega er það svo um það ákvæði hv. flm., að setja þá menn, sem brotlegir hafa reynst, í einskonar viðskiftabann. Jeg hygg, að það sje ekki heppilegt að taka það ákvæði upp.

Jeg þarf nú ekki að fara út í fleiri ákvæði frv. Það hafa aðrir gert, enda þótt hv. flm. og öðrum hans líkum þyki það máske ekki mikilsvirði, sem þeir segja, er sjálfir hafa togaraútgerð. En mjer finst það ómaklegt að láta skipshöfnina á þeim íslenskum togurum, sem brotlegir verða, gjalda þess með því að liggja aðgerðalausir í 10 daga inni á höfn, þó að skipstjórinn, sem skipinu ræður, hafi farið inn í landhelgina. Hv. flm. sagði reyndar, að rjettast væri að láta útgerðina borga skipshöfninni kaup þann tíma. Og það er reyndar ekki nema jafnviturlegt og annað, sem er í frv., að ætlast til að útgerðin borgi skipshöfn kaup þá daga, sem hvorki er siglt nje fiskað. Slík sanngirni og þetta er alvanaleg frá hv. flm. og samherjum hans.

Hv. flm. vildi brýna andstæðinga sína á því að segja, að þeir væru móti öllum till., sem gengju í þá átt að friða landhelgina, og að fult gagn verði að strandvörnunum. Jeg veit ekki vel við hvaða mál hv. þm. á. Þessi hv. þm. er nú með þessu frv. að burðast við fyrstu tillögu sína snertandi landhelgimálin. Hans hefir aldrei gætt fyr, eða nafn hans verið nefnt í sambandi við úrlausnir landhelgifriðunar. Og þessi fyrsta tillaga hans, sem hann ætlast til að bregði ljóma á nafn sitt, er þá þannig vaxin, að sú hliðin, sem að útlendingum snýr, er stórhættuleg, en hin hliðin, sú sem snýr að Íslendingum, er í fylsta lagi ómannúðleg gagnvart þeim sjómönnum, sem fyrir tjóni verða af ákvæðum frv. Þar sem fyrsta ganga hv. þm. er nú þannig, þá held jeg að hann ætti að koma með annað viturlegra, áður en hann fer að brýna aðra á því, að þeir sjeu andstæðir strandvörnum. Jeg er ekki togaraútgerðarmaður. En jeg skal lýsa yfir því, að þeir hv. þm. tveir, sem hv. flm. var að dylgja um að væru á móti landhelgivörnum, hafa aldrei verið á móti skynsamlegum till. í þá átt, þótt þeir hafi verið á móti sumum þeim málamynda tillögum, sem viss tegund stjórnmálamanna hjer á Alþingi hefir verið að fitja upp á öðru hvoru, snertandi botnvörpuveiðar. Þessar tillögur eða frv. eins og það, sem hjer um ræðir og t. d. Ömmufrv. alkunna, virðist ekki vera flutt í öðru skyni en því, að koma að uppáhalds umræðuefni þeirra stjórnmálamanna, sem hjer sitja og nota hvert tækifæri, sem gefst, til þess að vekja tortrygni gegn íslenskum útgerðarmönnum. Verði svo einhverjir til þess að andmæla vitleysunni eða benda á vanþekkingu frumvarpahöfundanna, þá er altaf viðkvæðið eins og núna hjá hv. flm. þessa frv., að andmælin sjeu sprottin af andúð gegn landhelgigæslunni. Þeir verða að minni hyggju hollráðastir í þessu efni sem öðru, sem vilja lögleiða aðeins það, sem vit er í og framkvæmanlegt er, en hugsa ekki um það, að búa til pappírslög, sem að engu haldi geta komið, eins og vaka virðist fyrir hv. flm. frv. þess, er hjer liggur fyrir.