06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í C-deild Alþingistíðinda. (3173)

97. mál, dómkirkjan í Reykjavík

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg skal ekki fylgja þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum, og get að mestu látið mjer nægja að óska eftir, að því verði vísað til 2. umr. og nefndar til athugunar. Hjer er farið fram á það, að ríkisstjórnin semji við söfnuðinn hjer í Reykjavík um að taka algerlega við umsjón og fjárhaldi dómkirkjunnar. Er hjer verið að velta þungum hagga af því opinbera, því að kirkjan er ríkiseign, og ríkissjóður verður að kosta viðhald hennar, og því opinbera ber skylda til þess að sjá söfnuðinum fyrir viðunanlegri kirkju. Nú er orðinn hjer svo mikill hörgull á húsplássi í kirkjunni, að það er komið langt út fyrir öll takmörk. Hjer er rúm í kirkju, þegar Fríkirkjan er ekki reiknuð með, fyrir ein 800 af 25000 bæjarbúum, svo að kirkjan er svo langt frá því að svara til mannfjöldans, og mun ástandið hvergi á landinu vera svipað þessu. Ef reisa ætti nýja kirkju, þá mun hún verða svo dýr, að það er mjög hæpið, hvort landið sjer sjer nokkurntíma fært að ráðast í það, því að vegleg verður hún að verða. Nú er vaknaður mikill áhugi hjá söfnuðinum hjer í Reykjavík fyrir kirkjubyggingu, og það er að miklu leyti þess vegna, að farið er fram á, að þessi heimildarlög verði samþ. Jeg skal svo láta mjer nægja að vísa til brjefs sóknar- og kirkjubyggingarnefndar og kafla úr brjefi biskups, sem hvorttveggja fylgir frv. sem grg. Það fer fjarri því, að hjer sje farið fram á mikið, þegar litið er á það, hvað mikið verk er hjer fyrir höndum. Ný dómkirkja hjer í Reykjavík mun kosta kringum 1 milj. kr. Hún verður ekki reist nema hún geti orðið svo vegleg, og eftir þessu frv. á ríkissjóður að sleppa með það, að borga ¼ af byggingarkostnaðinum. Jeg vil svo geta þess, að Reykvíkingar hafa upp á sitt eindæmi bygt stærstu kirkju landsins, Fríkirkjuna, og sýnir það, að þátttaka þeirra í lausn kirknamálsins er í rauninni ennþá meiri en út lítur í fljótu bragði.

Jeg vil svo óska, að málið fái að ganga til 2. umr. og hv. allshn., þar sem jeg býst við, að það heyri þar helst undir. (MG: Til fjhn.).