02.04.1929
Neðri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í C-deild Alþingistíðinda. (3177)

98. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Flm. (Jón Sigurðsson):

Jeg skal eigi þreyta hv. deild með langri ræðu um þetta mál, enda er þar ekki þörf langra skýringa. Hafnargerð á Sauðárkróki er í raun og veru ekkert nýmæli. Það eru nú 15 ár síðan byrjað var á garði fram af svokallaðri Eyri, norðan við kaupstaðinn. Sá garður hefir síðan verið lengdur smám saman, og er nú orðinn um 60 m. Lítill styrkur hefir komið til þessa verks frá ríkinu. Hafa hjeraðsbúar unnið það af sjálfsdáðum, og sýnir það áhuga þeirra á þessu mannvirki. Verkið hefir þegar borið nokkurn árangur. Þannig hefir Gönguskarðsá borið sand upp að garðinum að norðan, en sá sandur myndi hafa lent í höfninni, ef garðurinn hefði ekki verið. Hefir garðurinn þannig hamlað því, að höfnin gryntist meir en orðið er.

Síðastliðið sumar rannsakaði Finnbogi Þorvaldsson verkfræðingur hafnarstæðið á Sauðárkróki. Er áætlun vitamálastjóra, sú sem hjer liggur fyrir, bygð á athugunum verkfræðingsins. Þar er lagt til, að núverandi brimgarður verði breikkaður og lengdur um 210 metra, fyrst til austurs, en beygi síðan til suðurs og nái fram á 6–7 metra dýpi. Er gert ráð fyrir bæði skjólgarði og bryggju. Á auk þess að steypa skjólvegg, 1¼ m. háan að utanverðu. Í niðurlagi álitsins stendur:

„Lengd hafnargarðsins er ca. 270 m., og með slíkum garði fengist allsæmileg höfn með 75 metra bryggjuplássi fyrir skip, sem rista alt að 18 fetum, og 130 m. bryggjuplássi fyrir báta og smærri skip; auk þess töluvert leigupláss fyrir smáskip. Kostnaður við þetta mannvirki er áætlaður ca. 623 þúsund krónur.“

Í áætlun vitamálastjóra er kostnaðurinn all nákvæmlega sundurliðaður, en eigi tel jeg þörf á að fara nánar út í það nú, enda verður hún lögð fyrir nefnd þá, sem væntanlega fær málið til meðferðar.

Jeg þarf ekki að fjölyrða hjer um nauðsyn hafnargerðar á Sauðárkróki. Sú nauðsyn er augljós. Skagafjörður er eitt af fjölmennustu hjeruðum landsins. Og verslun hjeraðsins er að mestu leyti á Sauðárkróki. Þar er nú verið að reisa nýtísku frystihús. Vjelbátaútgerð vex óðum og mundi þó vaxa enn meir, ef eigi bagaði hafnarleysið. Þá má geta þess, að allmikið af þeirri síld, sem árlega berst á land, er veidd á Skagafirði, innan við eyjar. Má oft telja veiðiskip tugum saman í einu úti á firðinum um síldartímann. Kæmi örugg höfn á Sauðárkróki, er jeg viss um, að margir útgerðarmenn myndu fremur kjósa að hafa þar bækistöð sína en annarsstaðar.

Ennfremur vil jeg taka það fram, að það eru ekki dutlungar eins eða tveggja manna, sem koma fram í þessu frv. Það er flutt eftir einróma áskorun sýslunefndarinnar í Skagafjarðarsýslu.

Loks vil jeg leyfa mjer að vekja athygli hv. þd. á því, að allar lóðir á Sauðárkróki eru eign ríkisins. Undanfarin ár hefir hið opinbera lagt fram talsvert fje til að vernda þessa eign sína. Hættan, sem yfir vofir, er í því fólgin, að sjórinn brýtur eyrina norðan við kaupstaðinn. Með hafnargerð yrði komið í veg fyrir frekara landbrot. Og því fremur er ástæða til að sinna málinu, sem það er sameiginlegt áhuga- og nauðsynjamál bæði hjeraðsins og ríkisins.

Að svo mæltu legg jeg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.