08.04.1929
Neðri deild: 39. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í C-deild Alþingistíðinda. (3220)

113. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Þingsköp mæla svo fyrir, að við 1. umr. skuli ræða málin alment, en ekki einstakar gr. En nú stendur svo á með frv. þetta, að ekki er gott að ræða það án þess að koma inn á einstakar gr. þess. Mjer er það fullljóst, að verði frv. þetta að lögum, þá er ekki um neina venjulega breyt. að ræða á ábúðarlöggjöf eða á kjörum sveitabændanna, heldur er með því stofnað til hreinnar og beinnar byltingar.

Aðalhugmynd mþn. með frv. þessu virðist vera sú, að efla sjálfsábúð í landinu, og er ekki nema gott eitt til þess að segja, því að vel má vera, að hægt sje að komast lengra í því efni en ennþá er komið. En n. hefir lagt svo mikið kapp á þetta, að svo virðist fljótlega á að líta, að ógerningur verði fyrir einstaka menn, og þjóðfjelagið sömuleiðis, að eiga jarðir og leigja, með því að búa við þau skilyrði, sem frv. býður.

Jeg hefi um 20 ára skeið farið með umboð þjóðjarða í Múlaþingi, og er því farinn að kynnast ábúðarháttum þar, og reyndar nokkru víðar. Á þessum 20 árum hefir meginið af þjóðjörðum og kirkjujörðum landsins verið selt, en þó eru nokkrar eftir ennþá, og er jeg þeirrar skoðunar, að fullkomin nauðsyn sje fyrir ríkið að losa sig við þær líka, ef frv. þessu er ætlað að verða að lögum, að undanteknum þeim jörðum þó, sem kauptún standa á eða fjölmennar verstöðvar.

Nú er svo ástatt t. d. í grend við mig, að ekki aðeins jarðir hins opinbera fara í eyði, ein og ein og stundum tvær á ári, heldur líka jarðir einstakra manna; og meðan svo er ástatt, að flóttinn er sem mestur úr sveitunum að sjávarsíðunni, virðist ekki álitlegt að gangast undir þá kvöð frv. að hýsa jarðirnar vönduðum og dýrum húsum, sem enginn ábúandi vill eða getur greitt af lögvexti.

Aðalráð mþn. til þess að skapa þessa almennu sjálfsábúð er fyrst og fremst það, að gera jarðaeigendum að skyldu að byggja jarðir sínar til lífstíðar. Það ákvæði hefir við rök að styðjast, þótt sjálfsagt sje að heimila styttri byggingartíma eftir samningi, og yfirleitt — en ekki undantekningarlaust — eru opinberar jarðir leigðar æfilangt. En eins og ákvæði þetta er fram sett í frv., virðist mjer að ekki sje aðeins um lífstíðarábúð að ræða, heldur geti jafnvel verið að ræða um eilífðarábúð, því að í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ekkja haldi ábúðarrjetti látins manns síns, eins þótt hún giftist aftur. Um leið og hún giftist aftur öðlast maður hennar að sjálfsögðu ábúðarrjettinn, og fari svo, að hann missi þá konu sína og giftist aftur ungri konu, öðlast hún aftur ábúðarrjett hans, ef hann deyr á undan henni. Þannig getur því ábúðarrjetturinn gengið mann fram af manni um ófyrirsjáanlega langan tíma, og er þetta eitt af mörgum viðsjárverðum ákvæðum frv. í ábúðarlögunum frá 1884 er ekkju að vísu áskilinn ábúðarrjettur látins manns síns, en í reyndinni gildir það aðeins þar til hún giftist að nýju. Hefir því verið sjeð við þessari eilífðarmeinloku, þegar þau lög voru sett.

Hitt atriðið, að skylda eigendur jarðanna til þess að byggja svo upp á þeim, að það á hverjum tíma fullnægi kröfum ábúanda og úttektarmanna, er sú kvöð, sem jeg býst við að verði til þess, að ekki þyki borga sig að eiga jarðir fyrir aðra en þá, sem á þeim geta búið sjálfir. Kröfurnar um húsakost eru svo breytilegar frá einum stað til annars og eftir sveitavenju hverju sinni, að ekkert samræmi mundi verða í þeim og engin leið vera að fullnægja þeim með kleifum kostnaði, eða láta þær renta það fje, sem í þeim yrði bundið. Þær mundu fara eftir því meðal annars, hvernig búið er á jörðunum á hverjum tíma.

Jeg sje mjer nú alls ekki fært að taka fyrir á þennan hátt allar þær 17. gr. frv., sem flest er við að athuga og þurfa mestra breyt. við. Það verður að bíða til 2. umr., það er að segja, ef hún þá verður nokkur á þessu þingi. Annars verð jeg að segja það, að þegar um er að ræða að breyta ábúðarlöggjöfinni eins og hjer er farið fram á, þannig að breyt hafi stórfeld áhrif á sveitirnar og hag þeirra, þá getur ekki komið til mála að afgr. frv. þegar á þessu þingi. Eina forsvaranlega leiðin virðist mjer að láta afgreiðslu þess bíða næsta þings og gefa þjóðinni færi á að meta það og gera sínar aths. við það.

Jeg býst nú alls ekki við því, að tími vinnist til þess að ljúka máli þessu fyrir þinglok, og tel heldur ekki æskilegt, að svo verði. Þess vegna virðist mjer líka ástæðulaust að draga fram öll smáatriði eða fjölyrða um það í byrjun umr. Læt jeg því staðar numið að sinni, en bið um orðið síðar, ef umr. verða langvinnar, og mun þá hverfa að þeim atriðum, sem jeg tel mesta nauðsyn að gagnskoða. En helst vildi jeg, að frv. færi sem hljóðaminst til n. og bíði svo næsta þings, eflir að n. hefði gert sínar till. í málinu.