11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í C-deild Alþingistíðinda. (3239)

114. mál, síldarnætur

Flm. (Ólafur Thors):

Andmæli hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) voru öll á misskilningi bygð, því að hjer er ekki um það að ræða, að taka neina vinnu frá landsmönnum. Síldarnæturnar og netin verða bætt í landinu eftir sem áður, þó að frv. þetta verði að lögum. Það eru engin vandkvæði á að fá menn í landinu til þess. En hitt er, að sumt af því, sem gera þarf við þessi veiðarfæri, höfum við Íslendingar ekki sjerþekkingu til, og verða menn því að senda veiðarfærin til útlanda til slíkra viðgerða. En að lögum er það nú óheimilt, og mun ekki ofmælt, að ýmsir hafa því virt lögin að vettugi, enda ekki vitað um þau, og engin ámæli hlotið fyrir. Tilgangur frv. er því aðeins sá, að koma í veg fyrir að menn þurfi að brjóta lögin.