06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í C-deild Alþingistíðinda. (3257)

117. mál, skipun barnakennara og laun

Halldór Stefánsson:

Jeg skal gera grein fyrir þeim fyrirvara, sem jeg hefi bundið við fylgi mitt við frv. Jeg get ekki beitt mjer gegn því, að færð sjeu til nokkurs samræmis greiðsluhlutföll ríkissjóðs til farkenslu og eftirlitskenslu og annarar kenslu. Það virðist ástæðulaust að farkensla og eftirlitskensla sje rjettminni til styrks úr ríkissjóði en skólakensla. Hinsvegar vil jeg með engu móti, að fylgi mitt við þetta frv. verði skoðað sem nokkurt dálæti eða fylgi við barnafræðsluna í þeirri mynd, sem hún er. Jeg tel fyrirkomulag barnafræðslunnar hjer á landi bygt á fullkomnum misskilningi. Jeg tel að börn innan 11 ára aldurs hafi lítil skilyrði til þess, að hafa verulegt gagn af öllum þeim ítroðningi, sem við barnafræðsluna er beitt. Börn á þeim aldri brestur þroska og skilning til að hafa þess veruleg not. Að öðru leyti skal jeg ekki fara frekar út í þetta atriði málsins, enda mun það liggja utan við umræðuefnið.

Þá gildir fyrirvari minn og það, að ef bent verður á aðrar heppilegri leiðir, til þess að koma á jafnrjetti í styrkveitingu ríkissjóðs til farkenslu og eftirlitskenslu og annarar kenslu, þá áskil jeg mjer rjett til þess að fylgja þeim skynsamlegum breytingartill., sem fram kynnu að verða bornar um það efni.