17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í C-deild Alþingistíðinda. (3276)

117. mál, skipun barnakennara og laun

Jón Baldvinsson:

Satt að segja finst mjer þetta dálítið nýtt, að í svo miklu stappi skuli ganga með að úrskurða þessa atkvæðagreiðslu, því að jeg veit ekki betur en að þetta sje svo algengt, að það komi nærri því fyrir á hverjum fundi Alþingis, að einhver þm. neiti að greiða atkv. við nk. og tilfæri meiri eða minni ástæður. Mjer er heldur ekki kunnugt um, að forsetar noti þau refsiákvæði, sem þingsköp leggja þar við, gagnvart þeim mönnum, sem þannig koma sjer hjá að greiða atkvæði. Annars er það á valdi forseta að gera þeim einhver víti, en jeg hugsa, að annað sje ekki hægt að gera.

Jeg hygg, að það liggi fyrir hundruð úrskurða frá forsetum beggja deilda um það, að mál sje samþykt, þótt einhver þm. greiði eigi atkv. við nafnakall, og þótt atkv. þess þm. hefði getað ráðið, hvort samþ. var mál eða felt. Jeg man t. d. eftir, að það kom oft fyrir við atkvgr. um fjárlögin nú síðast, að brtt. við þau var samþ. með 7:6 atkv., og einn greiddi ekki atkv. Jeg man þar eftir, að styrkveiting til Jóns Leifs var samþykt svo, og jeg held að það hafi verið hv. 2. landsk. (IHB), sem þá greiddi ekki atkv., og þetta var þó lýst samþykt á sama fundi.

Þegar menn taka sig til og neita að greiða atkvæði, þá skilst mjer, að það sje af því, að það vegur meira í hug þeirra manna að bregða ekki fæti fyrir það mál, sem um er að ræða, þótt þeir vilji ef til vill ekki leggja sitt „positiva“ samþykki á málið.