17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í C-deild Alþingistíðinda. (3279)

117. mál, skipun barnakennara og laun

Jón Baldvinsson: Jeg get bent á það, að þegar fjhn hafði þetta mál til meðferðar, þá greiddi jeg ekki atkvæði um það þar. Það er af því, að það er einn flokkur kennara, sem hjer er um að ræða, en jeg hefði heldur viljað, að það hefði verið tekinn uppheill launaflokkur til athugunar. En þótt jeg ekki vildi bregða fæti fyrir þetta frv., þá vildi jeg þó ekki ljá því mitt jákvæði. Þetta er ástæðan til, að jeg ekki greiddi atkvæði við aðra umr. málsins, og þessa ástæðu býst jeg við að hafa enn, ef til atkvæða kemur, og mundi sennilega sitja hjá, ef til nafnakalls kæmi, og jeg vil benda á það, af því að hæstv. forseti sagði, að það væri dálítið öðru máli að gegna um smávægilegar brtt. heldur en heil lög, að jeg er hæstv. forseta sammála um það, að hann verður líka að líta á það, hvort málin eru stórvægileg eða ekki; getur það kannske haft nokkra þýðingu fyrir úrskurð hans. Jeg skal benda á annað dæmi. Jeg greiddi ekki atkvæði um veðdeildina í landbúnaðarbankanum, og það stóð á mínu atkvæði, hvort hún yrði samþykt eða ekki. Það voru greidd atkvæði um hana og hún samþ. með 7:6 atkv., en 4. landsk. (JBald) sat hjá, því að þótt hann væri ekki viss um gagnið af þessari deild bankans, þá vildi hann ekki bregða fæti fyrir málið, gegn eindregnum óskum þeirra manna, sem láta sig landbúnaðarmálin miklu skifla. Og þótt hjer sje ekki um heilan lagabálk að ræða, þá er það merkilegt atriði í búnaðarbankalögunum.