15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í C-deild Alþingistíðinda. (3304)

120. mál, refarækt

Jón A. Jónsson:

Það er rjett hjá hv. þm. Borgf. (PO), að eftir frv. er þeim einum leyfilegt að flytja út refi, er hafa haft refabú að minsta kosti eitt ár. En ástæðan til þess, að ekki hefir verið markaður ytra fyrir lifandi yrðlinga fyr en á síðasta ári mun vera sú, að refaeldismenn erlendis kaupa ekki önnur dýr en þau, sem alin eru upp í fangelsi. Því að reynslan er talin hafa sýnt, að þau dýr, sem veidd eru vilt, gefa stopulli og minni arð. Í Kanada gefa silfurrefir, sem eru viltir, ekki hálfan arð á við refi, sem upp eru aldir í fangelsum. Þeir Norðmenn, sem keyptu hjer yrðlinga síðastliðið vor, seldu bestu dýrin sem grænlensk dýr, en þau lökustu sem íslensk dýr, og eftir síðastliðið ár er ótrú hjá refabúseigendum í Noregi á íslenskum yrðlingum, og jeg hygg, að það verði ekki gróðavegur að flytja út vilta refi. Við verðum að koma upp refabúum og gera kynbætur á refunum; með því móti einu getur þetta orðið til hagsmuna fyrir bændur og aðra, sem stunda þennan atvinnuveg. Ennfremur þarf að koma hjer á dýralækniseftirliti með refabúunum. Norskur maður, Fuglestad að nafni, hefir flutt út refi, og talið er, að þeir hafi ekki allir verið lausir við húðsjúkdóma. Auk þess er þessi náungi uppvís að því, að hafa reynt að komast hjá að greiða toll af refum og skinnum. Hann varð einnig uppvís að því, að fara upp um heiðar og fjöll, til þess að veiða refi, og fjekk jeg hann sektaðan fyrir það. Ef á að leyfa slíka samkepni, leiðir það til þess, að Íslendingar verða út úr samkepninni, og þó eru það þeir, sem fyrst og fremst leggja eitthvað í kostnað til að bæta þessa atvinnugrein.