15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í C-deild Alþingistíðinda. (3308)

120. mál, refarækt

Frsm. (Einar Jónsson):

Mjer finst að þeir hv. þm., sem talað hafa um, að frv. væri óljóst orðað, hafi ekki gætt þess, að á bak við frv. stendur reglugerð, sem atvinnumálaráðuneytið setur og kveður nánar á um einstök atriði. Það er aldrei hægt að taka alt með í frv. eða lögin; þau yrðu þá svo löng, þess vegna er nauðsynlegt að hafa öll nánari atriði í reglugerðinni. Jeg hefði nú haldið, að sumir þeir, sem fundið hafa að frv., vantreystu ekki hæstv. atvmrh. að vera sanngjarn um samning reglugerðarinnar, eins og hans er venja.

Út af fyrirspurnum hv. þm. Barð. (HK) um, hvað átt sje við með fulltryggum girðingum, þá held jeg, að jeg megi fullyrða fyrir hönd n., að þar sje átt við hverskonar vörslu, sem á annað borð er álitin svo trygg, að dýrin geti ekki sloppið úr henni, nái það og til allra girðinga, úr hverju sem þær eru gerðar, svo og allra eyja, sem eru það langt undan landi, að sundið er talið ófært refum. Þó að ekki sje neitt sjerstakt ákvæði um að geyma megi refi í þar til gerðum húsum, þá býst jeg þó við, að slíkt yrði leyft, ef svo tryggilega væri um búið, að engin hætta væri á, að dýrin gæti þaðan sloppið. En viðvíkjandi þeim girðingum á landi, sem setja þarf í kringum refahóp, þá skal jeg aðeins taka það fram, að gert er ráð fyrir að hún sje svo trygg, að refirnir komist ekki út, og aðrar skepnur nái ekki til þeirra, svo að sóttnæmi berist ekki á milli. Þá hefir n. spurt sig fyrir um, hvort ekki væri hætt við, að refir græfu sig undir girðingarnar, og út, en við því kvað vera fundið einfalt ráð, en það er að koma járnbretti fyrir, innan girðingarinnar, og grafa það dálítið á ská niður í jörðina, og eru refirnir ekki enn orðnir svo hyggnir, að þeir kunni að varast það, og grafa sig því ekki út.

Um hitt atriðið, sem hv. þm. Barð. spurði, hvort 4–5 eða 10–12 refir, sem menn ala heima hjá sjer, skyldu skoðast sem refabú, þá er því til að svara, að jeg býst við, að svo sje ekki, eftir frv. að dæma, en kveða mætti nánar á um það í reglugerð. Annars hygg jeg, að hver og einn sje frjáls að því, að ala heima hjá sjer 1 eða 2 refi eða eitthvað fleiri, ef varslan er það trygg, að engin hætta sje á að refirnir hlaupi á braut.

Þó að undarlegt sje, þá er engu líkara en að hv. þdm. hafi skotist yfir að lesa síðari hluta 2. gr. frv. Þar er tekið skýrt fram, að hreppstjórar skuli hafa eftirlit með, að refagirðingar sjeu hafðar svo öruggar, sem reglugerð tilskilur. En stærsta atriðið er, að um þetta sje tryggilega búið lögum samkvæmt. Því þar sem ætla má, að refarækt geti orðið arðvænlegur atvinnurekstur, verður að fyrirbyggja það, að refirnir geti sloppið út og lagst á sauðfje nágrannanna.

Fyrir hönd landbn. er mjer óhætt að fullyrða, að fyrir okkur vakti ekki annað með frv. þessu en það, að við vildum tryggja sem best, að refarækt mætti reka hjer á landi, án þess að aðrir liðu nokkurt tjón fyrir það. En hafi landbn. ekki tekist að ganga frá þessu eins tryggilega í frv. og æskilegt væri, vænti jeg þó, að í hinni væntanlegu reglugerð atvinnumálaráðuneytisins verði þetta svo ljóst og greinilega orðað, að ekki geti orkað tvímælis við hvað er átt.