15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í C-deild Alþingistíðinda. (3310)

120. mál, refarækt

Jón Auðunn Jónsson:

Mjer finst frv. þetta miða að því, að tryggja refaræktina á tvennan hátt. Í fyrsta lagi, að refir sjeu aðeins geymdir í þeirri vörslu, sem vel og tryggilega er um búið, og í öðru lagi, að þau dýr, sem út eru flutt, sjeu hvorki ónýt eða sjúk svo að þau spilli ekki fyrir sölunni.

Jeg fæ ekki sjeð, að neinar hindranir sjeu fyrir því í frv., að menn geti selt refi hverjum sem vera vill. Hjer eru refir uppaldir til þess að lóga þeim á fyrsta ári, og þeir sem eru fluttir út, hafa altaf verið drepnir þar næsta vetur. Sú verslun getur því haldið áfram óhindruð, þó að frv. þetta verði að lögum. Því það er ekki verið að stofna til þess, að gera yrðlingana verðmeiri en áður, nema ef lifandi refir seljast hærra verði en skinnin. En fyrir því þarf varla að gera ráð. En að verðið á yrðlingum varð svo hátt síðastliðið sumar stafaði eingöngu af því, að eftirspurnin á lifandi refum varð svo mikil frá Noregi, aðallega vegna kynblöndunar, er þeir vildu reyna á refabúum þar í landi, og að sjálfsögðu kaupa þeir, sem ætla dýrin til þeirra hluta, aðeins úrvalsdýr, og það er venja, að menn kaupa til þessara nota aðeins þau dýr, sem vitanlegt er um, að eru af góðu kyni.

Nú er vitanlegt, að hjer á landi er fjöldi refabúa í uppsiglingu. T. d. er mjer kunnugt um, að settar verða 2 refagirðingar upp í Norður-Ísafjarðarsýslu á næstu árum, og von á 2 eða 3 í Borgarfirði til viðbótar þeim, sem þar eru fyrir. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja það í tíma, að þessi alvinnuvegur verði ekki til ills eins þeim sem hann stunda, vegna utanaðkomandi orsaka.

Það er mín trú, að víða í sveitum landsins megi reka refabú og refarækt sem arðberandi atvinnu, þótt ekki sjeu refir fluttir út lifandi, því það mun ekki verða til hagsbóta í framtíðinni. Hitt, að kynbæta refastofninn svo að skinnin verði góð útflutningsvara, á að vera framtíðartakmarkið. Samkepnin ætti að vera nægileg, því mjög margir hafa í hyggju að koma á fót refabúum. Árlega veiðast um 200–400 yrðlingar. Tæplega getur komið til mála, að hætta stafi af fjölgun refabúa, ef vel er um búið. Jeg held, að refaeldi geti þrifist í flestum sýslum landsins; sumstaðar eru þó ekki skilyrði til refaræktar, en víðast mætti reka refabú með góðum árangri, ef stefnt er í rjetta átt með kynbætur og fleira.