24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í C-deild Alþingistíðinda. (3313)

120. mál, refarækt

Halldór Stefánsson:

Við 1. umr. þessa frv. komu fram nokkrar almennar aths. við það. Sje jeg nú, að hv. landbn. hefir viljað taka þær athuganir til greina að nokkru leyti, því ef gengið verður að till. hennar, verður nokkur umbót á frv. — Hinsvegar virðist mjer svo um till. n., að þær sjeu fremur ófimlega fram settar, og í öðrum atriðum sýnist mjer að þær geti orkað tvímælis. Svo er um það ákvæði, er n. setur, að í viðbót við öruggar girðingar til geymslu refa komi: „önnur örugg varsla“. Hjer er það þó ekki orðalag tillögunnar sjálft, sem getur talist svo mjög athugavert, heldur hitt, ef þessi viðbót er miðuð við þau ummæli, sem komu fram við 1. umr., að geymsla í eyjum myndi mega teljast örugg varsla. Sje hjer átt við geymslu í eyjum, þá tel jeg það alls ekki örugga vörslu. Í hörðum vetrum getur orðið samísa við land og refirnir sloppið. Komið hefir það fyrir, að grunur allsterkur hefir leikið á, að slíkt hafi átt sjer stað. Vil jeg því vekja athygli á því áliti mínu og fleiri manna, að eyjar sjeu ekki örugg varsla, nema girt sje um refina þar sem annarsstaðar.

Þá vil jeg víkja að brtt., sem jeg, ásamt 2 hv. þm. öðrum, er flm. að og eru á þskj. 377. — Það er svo ákveðið í frv., að ekki megi flytja út refi nema frá búum, sem starfað hafa eitt ár. Við 1. umr. var á það bent, að með þessu ákvæði væri meira gætt hagsmuna refaeldismanna en þeirra, sem refina veiða, og núverandi refabúum veitt forrjettindi, sem leitt gætu til þess, að draga úr eðlilegu verði yrðlinganna, og þar með úr áhuga manna fyrir því að veiða þá. — Nú höfum við þó ekki viljað ráðast harðlega á þetta ákvæði frv., heldur leggjum aðeins til, að þessu ákvæði laganna verði frestað um eitt ár, svo menn fái hæfilegan frest til að búa sig undir samskonar aðstöðu til refaeldis og útflutnings, hvar sem vera skal á landinu. Þessi frestur er þeim mun nauðsynlegri, að ætlast er til, að sett verði reglugerð um tilhögun refagirðinga, rekstur refabúa o. fl., sem enn er ekki vitað hvernig verður. Er því rjett, og það minsta sem hægt er að fara fram á, að fresta þessu ákvæði um eitt ár. Einfaldast hefði verið að fresta öllum lögunum um eitt ár, en við flm. höfum viljað fara svona vægilega, vegna þess að vera má, að sum önnur ákvæði frv. megi strax að gagni koma. Höfum við því ekki gengið lengra en svo, að við leggjum til að ákvæði 3. gr. verði frestað, að öðru en því er snertir dýralækniseftirlitið með þeim refum, sem út eru fluttir.