24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í C-deild Alþingistíðinda. (3314)

120. mál, refarækt

Frsm. (Einar Jónsson):

Jeg býst við, að hv. þdm. minnist þess, að við 1. umr. komu fram nokkrar aths. og aðfinslur við frv. þetta. Landbn. hefir viljað taka þetta til greina og kemur því nú fram með brtt. á þskj. 363, sem gera allmiklar breytingar á frv., ef samþ. verða. — Að vísu áleit landbn., að vel mætti við frv. una eins og það kom fram, en vildi gera það þeim hv. þm., sem óánægðir voru, til geðs, að breyta því, eins og till. benda til.

Hv. 1. þm. N.-M. hefir nú gert ýmsar aths. við þetta mál. Meðal annars sagði hann, að n. hefði farist ófimlega með brtt. sínar. Jeg hygg þó, að þær sjeu formlega fram settar. Máske má segja, að óljóst sje, hvað við er átt með öruggri vörslu. Það er rjettilega athugað, að þetta orðalag er notað í sambandi við geymslu í eyjum. Það hefir komið í ljós í umr., að eyjavarslan væri ekki trygg. Skal jeg ekki bera á móti því. En samkv. brtt. verður sett í reglugerð, hvað telja megi trygga vörslu. Og þá verður líka sett nánara ákvæði um það, hvaða eyjar teljast megi tryggar. — Þetta lýtur og einnig að þeirri spurningu, sem sett var fram við 1. umr. um það, hvort hús mætti telja örugga vörslu. Hús geta vitanlega verið svo útbúin, að þau geti talist örugg varsla. Sje jeg ekki, að nánari skilgreiningu þurfi á þessu í frv., þar sem lagt er til, að sett verði reglugerð um þetta. — Það ríður vitanlega mest á því, að geymslan sje örugg, á hvern hátt sem henni er fyrir komið. Og þar sem hreppstjórar eiga að hafa eftirlit með þessu, þá má telja, að vel sje frá því gengið. Þetta var að vísu trygt í frv. En vera má, að enn betur sje frá því gengið með brtt. landbn.

Brtt. á þskj. 377 og 378 hefir landbn. athugað, en ekki tekið neina afstöðu til þeirra og hefir því óbundnar hendur um atkvgr. um þær. — Mitt álit er, að þær muni frekar bæta frv., en sjeu þó ekki nauðsynlegar.

Það var spurt um það af einum hv. þm. við 1. umr., hvað mörg dýr þyrftu að vera alin til þess að kallast mætti refabú, hvort t. d. 5 eða 6, eða þá 10 eða 12. Það er mitt álit, að þar geti kallast refabú, sem refir eru aldir, hvort heldur eru færri eða fleiri. Þetta orð, refabú, fellur saman við orðið kúabú, eða fjárbú, sem svo eru nefnd, án tillits til fjölda búfjárins. Og þótt fáir refir sjeu aldir, er jafn rjett að kalla búið refabú. Aðalatriðin í þessu máli eru þau, að varslan sje örugg, og heilbrigðiseftirlitið sje í lagi, svo erlendum markaði sje ekki spilt með útflutningi sjúkra dýra. Það hefir verið sagt, að Norðmen seldu betri dýrin frá okkur sem grænlensk dýr, en ljelegri dýrin sem íslensk.

Þetta þarf að fyrirbyggja, og hygg jeg að það sje gert með viðbótartill. landbn. (PO: Nei, nei! — Hlær). Ef hv. þm. Borgf. vill gera grín að þessari afgreiðslu nefndarinnar, þá ætti hann að koma fram með till. sjálfur, sem væru skynsamlegri og trygðu þetta betur. Annars þarf jeg ekki að masa meira um þetta. Jeg álít, að eins og gengið er frá till. landbn., þá sje þetta trygt og megi því vel við það una.