24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í C-deild Alþingistíðinda. (3317)

120. mál, refarækt

Pjetur Ottesen:

Eins og jeg benti á við 1. umr. þessa máls, þá verður þeim einum heimilt að selja refi til útflutnings, ef þetta frv. verður samþykt, sem eiga refabú og hafa starfrækt það árlangt. Þessum fáu mönnum er með lögum trygður sá rjettur, að mega ráða hvaða verð skuli gefið fyrir tófu-yrðlinga á þessu ári. í tilefni af þessu flytjum við þrír þingdeildarmenn brtt. á þskj. 377, sem gengur út á það, að þetta ákvæði, um takmörkun á sölu refa til útflutnings, komi ekki til framkvæmda á þessu ári. Það er tilgangur okkar að gefa þeim mönnum, sem stunda refaveiðar, kost á að skapa sjer aðstöðu á þessu ári, til að komast undir þetta ákvæði laganna. Það er meining okkar að koma í veg fyrir einokun á sölu yrðlinga, og að stuðla að því, að sú samkepni, sem var hjer í fyrra og hækkaði þá verðið á yrðlingum, geti haldist þetta ár.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Barð. (HK), að þetta mundi veita Norðmönnum aðstöðu til að reka hjer einhverskonar leppmensku á þessu ári. Þetta nær ekki nokkurri átt. Ef um slíka leppmensku gæti verið að ræða, þá verður hún jafnt, hvort sem þessi brtt. okkar er samþykt eða ekki. Þeir gætu eins látið stofna hjer refabú.

Það hefir komið hjer fram hjá sumum háttv. þdm., sem talað hafa, að mikil hætta gæti stafað af því fyrir okkur að flytja út íslenska refi, af því að það veiti Norðmönnum aðstöðu til að rækta íslenskt refakyn; en þessir menn þurfa ekki að halda að með frv. eins og það er úr garði gert sje girt fyrir þessa hættu. Það er einmitt hinn mesti misskilningur, því að frá þeim refabúum sem nú eru rekin og uppfylla skilyrði laganna, má flytja út lifandi refi eftir sem áður. Og kunnugt er að þeir, sem standa hjer fyrir refabúum, fluttu sjálfir út refi árið sem leið. Eins og háttv. 1. þm. N.-M. benti á, þá verða ekki reistar skorður við þessu með öðru en því, að banna með öllu útflutning á refum; en það er ekki gert með frv. Ef það er satt, að Norðmenn selji betri hlutann af þeim refum, sem þeir kaupa hjer á landi, sem grænlenska refi, en aðeins lakari hlutann sem íslenska refi, þá verður hvorugt af þessu fyrirbygt með frv. — Þeir, sem kaupa refi af refabúunum, geta flokkað þá á sama hátt og áður við sölu erlendis.

Andstaða okkar gegn frv. byggist ekki á neinu öðru en því, að við viljum sporna við því, að þessir fáu menn, sem reka refabúin, fái aðstöðu til að skamta öðrum verðið fyrir refayrðlinga. Og jeg skal ekki trúa því, að háttv. Alþingi felli þetta ákvæði, sem á að sporna við því, að sárfáir einstaklingar fái aðstöðu til þess að skamta þeim, sem refi veiða, verð fyrir dýrin eftir eigin vild.

Það kom greinilega fram í ræðu hv. 1. þm. N.-M., hvað fyrir okkur vakir með þessari tillögu, svo að hv. þdm. þurfa ekki að vera í neinum vafa um það, og get jeg því látið máli mínu lokið.

En jeg vil þó nota tækifærið til þess að láta í ljós megnustu vanþóknun mína á framferði sumra utanþingsmanna, í sambandi við þetta mál, sem reyna á ýmsan hátt að fá þingmenn til þess að fylgja hagsmunamálum sínum. Þessum mönnum ætti að veita rjettmæta hirtingu með því að hafa áleitni þeirra að engu.

Á þskj. 378 er komin fram brtt. frá hv. þm. Barð. Ef hún verður samþ., kemur fram ósamræmi milli hennar og 3. gr. frv. Samkv. brtt. eiga þau ein að teljast refabú, sem starfa árlangt, en í 3. gr. er gert ráð fyrir, að refabú kunni að starfa styttri tíma.

Jeg vil spyrja hv. þm. Barð., hvað hann á við með þessari brtt. sinni. Hvort hann ætlast til þess, að aðeins þau bú, sem starfa árlangt eða lengur skuli háð dýralækniseftirliti. Jeg held það hljóti að vera meiningin, en þá þarf hann að taka það ljósar fram en gert er, svo að ekki orki tvímælis.