24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í C-deild Alþingistíðinda. (3324)

120. mál, refarækt

Lárus Helgason:

Það er ekki nýtt, að athafnamennirnir fái slæmar aðdróttanir fyrir að ríða á vaðið og hefjast handa. Ber að þeim brunni hjer sem oftar. Hefir hjer verið veitst allsvæsið að þeim athafnamönnum, er hófust handa til að stofna hjer refabú, en þeim ekki að sama skapi þakkað fyrir að hafa margfaldað verðið á refunum. Hv. þm. Borgf. getur ekki neitað því, hve feginn sem hann vildi, að það var refabúunum að þakka, að svo hátt verð fjekst fyrir refi síðastliðið ár og kunnugt er. Og þegar verið er að tala um það, að verið sje að fá þessum mönnum einhver sjerrjettindi, er það eins og hver önnur fjarstæða. Þessir menn hafa reynt að koma góðu skipulagi á þessa atvinnugrein, og þá er komið á þann skjáinn, að bera þeim hinar lökustu hvatir á brýn. Það er sagt, að þeir vaði uppi og hangi í þm., sem rjett væri að straffa þá fyrir. Ekki hefi jeg orðið var við neitt slíkt. (PO: Hv. þm. V.-Sk. beit þá á agnið). Það er landbúnaðarnefndin öll, sem flytur málið. Jeg held, að það væri sómasamlegra að styðja þessa menn til að koma skipulagi á þessa atvinnugrein, svo að hún geti orðið varanleg og til frambúðar. Jeg sje ekki betur en að rjett sje að koma í veg fyrir, að Norðmenn kaupi hjer refi og selji síðan þá bestu sem grænlenska og þá verstu sem íslenska. Þeir menn, sem að refabúunum standa, hafa fyrir augum framtíð þessa máls, og tel jeg því illa farið, að eins skynbær þm. og hv. þm. Borgf. er, skuli rísa upp með ofsa og ofstopa í garð þessara manna.