24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í C-deild Alþingistíðinda. (3325)

120. mál, refarækt

Hákon Kristófersson:

Hv. þm. Borgf. spurði, hvað fyrir mjer vekti með brtt. minni. Jeg hefi nú leitast við að skýra það áður, en hv. þm. Borgf. mun hafa verið fjarstaddur, svo að jeg skal endurtaka það.

Það sem fyrir mjer vakir er, að það sje ekki háð eftirliti dýralæknis, þegar yrðlingar t. d. eru aldir nokkurn hluta úr ári til lógunar.

Hv. þm. Borgf. taldi þessa brtt. mína í ósamræmi við 3. gr. frv. Það fæ jeg ekki sjeð, að rjett sje, svo fremi sem 1. brtt. hv. landbn. verði samþ. En jeg vil undirstrika það, að annað vakir ekki fyrir mjer með brtt. minni en nú sagði jeg.

Hjer hafa orðið allmiklar hnippingar út af þeim brtt., sem fyrir liggja. Þykir þar hverjum sinn fugl fagur, eins og eðlilegt er. Hv. þm. Borgf. heldur því fram, að refabúin muni ráða verðlagi á refum, ef sú brtt., sem hann stendur að, nær ekki fram að ganga. (PO: Ekki í ár). Jeg skal ekki undan fella, að þetta geti átt sjer stað, en þó gæti orðið hjer talsverð samkepni milli innlendra manna, eins og hv. þm. N.-Ísf. benti á. Það mun rjett hjá hv. þm. Borgf., að Norðmenn hafi ekki átt lítinn þátt í því háa verðlagi, sem hjer var á refum síðastliðið vor, en sú samkepni var svo óeðlileg, að hún ætti ekki að eiga sjer stað í framtíðinni. Jeg er hræddur um, að minn góði vinur, hv. þm. Borgf., hafi misskilið það, sem jeg sagði í minni fyrstu ræðu, viðvíkjandi því, hverjir hafa hagnað af útflutningi refanna. Jeg sló engu föstu í því efni; það litla, sem jeg sagði um það, átti fremur að vera með spurningarmerki. Jeg álít, að það sje vafasamt, hvort sú verslun sje heilbrigð, þegar yrðlingar eru seldir við hærra verði en hægt er að gera sjer vonir um að fá fyrir skinnið að vetrinum. En hinsvegar verð jeg að vera á sama máli og hv. þm. Borgf. um það, að um enga tryggingu sje að ræða á þessu sviði, þó að þetta frv.

nái fram að ganga. Það leiðir af sjálfu sjer, að nústarfandi refabúum er heimilt að flytja út refi, enda kom mjer ekki til hugar, að nein ákvæði frv. útilokuðu slíkt.

Hvaðan þetta frv. er runnið, er mjer ekki kunnugt, nema það, að hv. landbn. hefir borið það fram. Og jeg verð að segja það, að jeg tel það ekki óviðeigandi, að hæfilegri verndun sje beitt gagnvart þeim mönnum, sem ráðist hafa í fyrirtæki, til þess að hækka verðið á þessari vöru. Ef útlendir menn hefðu verið einir um hituna og engin tilboð komið í refina frá innlendum mönnum, er jeg sannfærður um það, að verðið hefði ekki komist í námunda við það, sem það varð síðastliðið vor. Og jeg get með engu móti gengið inn á það, að innlendir menn hafi engan rjett á sjer í þessum efnum.

Jeg ætla ekki að slá mjer út í þær orðahnippingar, sem hjer hafa orðið, en jeg vænti þess, að jeg hafi skýrt það svo, hvað fyrir mjer vakir með brtt. mínum, að hv. þdm. þurfi ekki að rekast í vafa um það.