24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í C-deild Alþingistíðinda. (3328)

120. mál, refarækt

Hannes Jónsson:

Þetta frv. mun aðallega eiga að stefna að þrennu. Í fyrsta lagi að því, að veita 2–3 mönnum einkaleyfi til að flytja út refi. Í öðru lagi mun það eiga að tryggja fjáreigendur gegn þeirri hættu, sem altaf vofir yfir, að refirnir sleppi úr girðingunum. Og í þriðja lagi er því ætlað að tryggja það, að sjúk dýr sjeu ekki flutt út.

Hv. þm. N.-Ísf. virtist álíta það, að þeir menn, sem á móti þessu frv. eru, töluðu af vanþekkingarinnar stigum. Það er þægilegt að slá svona nokkru fram, en sannfærandi er það ekki. Hv. þm. N.-Ísf. talaði af svo miklum myndugleik, að ætla mætti, að hann einn kynni skil á þessum hlutum. Maður skyldi halda, að hv. þm. hefði alist upp með refum og þekti því alla háttu þeirra og eðli. En hvað sem um þetta er, þá virðist mjer refseðlið runnið í merg og blóð þeim mönnum, sem sömdu þetta frv., og það óþarflega mikið.

Í greinargerð frv. stendur aðeins þetta um höfuðtilgang þess: að rjett sje að hlynna að viðleitni brautryðjanda á þessu sviði. Því er alveg slept, hvernig hlynna eigi að þessum brautryðjöndum. Aftur á móti er nokkuð ítarlega farið út í það, hvernig tryggja eigi fjáreigendur, og um nauðsynina á eftirliti dýralæknis. Með þessu er verið að leiða menn fram hjá aðalkjarna málsins, sem er einkarjettur refabúanna til útflutnings á refum.

Jeg hefði kunnað betur við, að hv. landbn. hefði strax gengið hreint til verks, en ekki verið að þreifa sig áfram eftir þessum krókaleiðum.

Jeg minnist þess, að strax við 1. umr. þessa máls kom það í ljós hjá ýmsum hv. þdm., að það væri nokkuð hæpið að veita slík einkarjettindi til útflutnings, eins og hjer er farið fram á; þá kom það fram hjá hv. stuðningsmönnum frv., að þetta gæti komið til mála, en nú er því algerlega slegið föstu, að hjer sje aðeins að ræða um þau bú, sem starfað hafa árlangt. Hjer er þess vegna ekki farið í neinar grafgötur með það, hvað verið er að gera fyrir þessi bú, en hitt er það, á hve miklum rjettlætisgrundvelli þetta er bygt, en þegar búið er að slá því föstu, þá er hægt að ræða um hitt, og þá get jeg, eins og hv. þm. Borgf. tók fram, ekki fundið þær knýjandi ástæður fyrir hendi, sem geri það rjett að ganga inn á þessa braut. Jeg minnist þess, að það kom fram hjer frv. um það að reyna að hindra eða útiloka að einhverju leyti norskar verksmiðjur við að vinna úr fiskúrgangi, en fjhn. þessarar hv. deildar hefir ekki viljað ganga inn á þá braut í því efni að hindra það, að erlendir kraftar geti komið hjer til greina, til þess að auka sölumöguleika þeirra afurða, sem við höfum.

Vil jeg svo ekki fjölyrða frekar um það, hversu rjettmætt þetta einkaleyfi sje, því að hv. þm. Borgf. hefir tekið það greinilega fram. (JAJ: Hv. þm. Borgf. er meðmæltur því, að útflutningur refa verði eftirleiðis aðeins frá refabúum). Jeg veit, hvað hv. þm. Borgf. meinar með því að vilja láta fresta framkvæmdum í ár, og vafasöm meðmæli tel jeg það með frv., að vilja ekki láta framkvæma það.

Þá vil jeg minnast litið eitt á brtt. á þskj. 378. Jeg hefði helst óskað þess, að hv. flm. tæki þá brtt. aftur til 3. umr., ekki af því, að sú meining, sem liggur í henni, sje ekki rjett, heldur af því, að jeg óttast, að brtt. verði misskilin, ef ekki er farið eftir umsögn hv. flm. um þetta atriði. Mjer virðist, að þessu hefði mátt koma fyrir á mjög einfaldan hátt, með því að koma henni að við 1. brtt. hv. n., og orða hana eitthvað á þá leið, að þau refabú, sem starfi árlangt, skuli vera háð dýralækniseftirliti. Jeg held, að það verði ekki deilt um það, til hvers er ætlast hjer. Hefir hv. þm. Barð. heyrt hvað jeg er að segja? (ÓTh: Hv. þm. (HK) skyldi nú hafa hent það óhapp að heyra það ekki!). Það væri æskilegt að sem flesta þingmenn hentu þau óhöpp, ef hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) vill kalla það óhöpp, að reyna að gera lögin svo úr garði, að hægt væri að fá eitthvert vit úr þeim. En ef hv. þm. (ÓTh) er hugsunarlaus um þetta mál, sem þó að vísu er ekki stórfelt, þá gæti maður hugsað, að hv. þm. væri skeytingarlítill um þau hin stærri málin, og jeg vil minna hv. þm. á það, að sá, sem er trúr yfir litlu, verður settur yfir meira. (HK: Já, svo segir í heilagri ritningu).

Jeg hefi svo ekki meira um þetta að segja fram yfir það, sem þegar hefir verið tekið fram, en vil eindregið leggja það til, að hv. þd. afgreiði ekki svona frv., sem hefir í sjer fólgna allmikla stefnubreytingu frá því, sem margir hv. þdm. virðast hallast að, en ef frv. á að ná fram að ganga, þá fái það sæmilega afgreiðslu, og helst hefði jeg kosið, að þessu máli væri vísað til milliþinganefndar í landbúnaðarmálum, af því að það gæti verið ástæða til að athuga ýmislegt fleira í þessu sambandi. Jeg vildi t. d. taka það fram, að það gæti verið fylsta ástæða til að athuga það, hvort hver maður ætti ekki að fá að njóta rjettar síns til refaveiða í eigin landi, og þar gilti hinn almenni veiðirjettur. Auðvitað yrði sá veiðirjettur að vera undir opinberu eftirliti, t. d. sveitarstjórnar. Jeg get ekki sjeð neina heilbrigða skynsemi í því, að taka slíkan veiðirjett af mönnum, ef veiði dýranna er jafn trygg og áður.