06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í C-deild Alþingistíðinda. (3341)

120. mál, refarækt

Magnús Jónsson:

Hv. 2. þm. Eyf. hlýtur að sjá það, að stór munur er á því, að fella niður nú, að frv. óbreyttu, það sem sjerstaklega var í það bætt við 2. umr., eða að það er gert sem rökrjett afleiðing af því, að nýjar forsendur eru komnar fram í málinu, en svo var, ef brtt. mínar hefðu verið samþ. Þá var skriflega brtt. ekkert nema sjálfsögð afleiðing af því, hvernig frv. þá var orðið. En þar sem brtt. mínar voru feldar, þá fæ jeg eigi sjeð, að hægt sje að bera skriflegu brtt. upp, að öllum forsendum óbreyttum frá því sem var, er ákvæðið um stundarsakir var samþ. við 2. umr. — Að vísu legg jeg ekki svo mikið upp úr því, hvort till. kemur til atkv. eða ekki, því vitanlega mun atkvgr. fara sem við 2. umr., svo hjer er engu stefnt í hættu.