27.02.1929
Efri deild: 9. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í C-deild Alþingistíðinda. (3362)

36. mál, friðun á laxi

Flm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um frv. þetta, þar sem þessi hv. deild hafði það til meðferðar í fyrra, og það er nú borið fram nær samhljóða því, sem hún afgreiddi það þá til neðri deildar. Jeg vænti þess aðeins að hv. deild viðurkenni nú eins og þá, að frv. sje nauðsynleg breyting á laxveiðalögunum. Að öðru leyti vísa jeg til greinargerðarinnar við frumvarpið í fyrra, sem var talsvert ítarleg. Í annari málsgrein 1. gr. hefir slæðst inn prentvilla: „86 stundir á viku“ í stað 36. Prentvilla þessi verður að sjálfsögðu leiðrjett við endurprentun frv. Fjölyrði svo eigi frekar, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn. að lokinni þessari umr.