02.03.1929
Efri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í C-deild Alþingistíðinda. (3365)

36. mál, friðun á laxi

Jónas Kristjánsson:

Þar sem jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, vil jeg með nokkrum orðum gera grein fyrir honum. Fyrirvari minn stafar ekki af því, að jeg sje málinu mótfallinn, heldur því sama og á síðasta þingi, að nú eins og þá er á ferðinni frv., sem fer í svipaða átt. Á jeg þar við frv. um Fiskiveiðafjelög. Mjer finst því með frv. þessu sje aðeins tjaldað til einnar nætur, þar sem gera má ráð fyrir, að menn vindi mjög bráðan bug að því að auka veiði í ánum og geri samþyktir um veiði í þeim eftir að Fiskiveiðafjelagsfrumvarpið verður að lögum. Af þessum ástæðum hefði mjer því fundist að frv. það, sem hjer er til umræðu, hefði mátt bíða, en þrátt fyrir það get jeg greitt því atkvæði mitt út úr deildinni.