08.03.1929
Neðri deild: 17. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í C-deild Alþingistíðinda. (3370)

36. mál, friðun á laxi

Gunnar Sigurðsson:

Jeg get ekki annað en látið í ljós undrun mína yfir því, að hv. Ed. skuli hafa afgreitt frv. þetta í þessari mynd. Svo mikil lenging á friðunartímanum, sem þar er farið fram á, er með öllu óþörf og víða til tjóns. Sumstaðar hagar svo til, að veiðin er langmest nálægt ármynninu. Svo háttar til um Þjórsá og enda Ölfusá líka. Þeir fáu, sem þar veiða, gera þeim, sem ofar búa, lítið eða ekkert tjón með veiði sinni. T. d. er engin laxveiði fyrir ofan Urriðafoss, enda þótt lítið eitt af laxi gangi upp fyrir hann. Til slíkra áa sem þessara má og telja Hvítá í Borgarfirði. Í þeim tilfellum sem nefnd hafa verið, væri því þeim, er neðar ættu veiði, meinað að nota hana, til lítils eða einskis gagns fyrir þá, er ofar ættu veiði. í ármynnunum kemur ekki til mála, að hægt sje að stokkleggja, og því vil jeg benda hv. landbn. á, að sjálfsagt er að flokka árnar. Mjer finst líka mál þetta svo stórt, að vert sje að landbn. athugi það vel, og vil skjóta því til hennar, hvort ekki sje rjett, að milliþinganefnd sú í landbúnaðarmálum, er nú situr á rökstólum, fái það til meðferðar.