11.04.1929
Efri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í C-deild Alþingistíðinda. (3378)

58. mál, vigt á síld

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Sjútvn. hefir orðið sammála um að mæla með því, að frv. þetta verði gert að lögum, og leggur því til, að hv. deild samþ. það með lítilli breytingu.

Tilgangur frv. er sá, að fá það ákveðið með lögum, að síld sú, sem seld er í bræðsluverksmiðjur, sje vegin, en ekki mæld. Áður var hún jafnan mæld, en á síðari árum hefir sú breyting á orðið, að sumstaðar er farið að selja hana eftir vigt. Þar sem engin lagaákvæði voru til um þetta, þá þótti sjútvn. rjett, að lög væru sett um þetta.

Eina breytingu, lítilsháttar þó, vill n. gera á 1. gr. frv. Þar var svo ákveðið, að vogir þær, sem notaðar yrðu, skyldu taka að minsta kosti innihald eins mælikers. En brtt. fer fram á það, að hægt sje að vigta í einu að minsta kosti innihald tveggja mælikera, ásamt því íláti, sem síldin er vegin í. Þetta er gert af því, að n. er kunnugt um, að þar sem síldin hefir verið vegin, hefir víða verið síður að vega innihald 2 mælikera í einu. Einnig er það trygging fyrir því, að notaðar verði sterkari og öflugri vogir, sem þá líka yrðu nákvæmari.

Nú má gera ráð fyrir því, að ekki verði allir sammála um það, hvað 1 mæliker taki mörg kg. síldar. í frv. er ákveðið, að það skuli vera 135 kg. Vil jeg láta þeirri till. fylgja þær upplýsingar, að í norskri fræðibók, sem jeg hefi lesið um þetta efni, er gengið út frá því, að 1 mæliker innihaldi 135 kg. síldar. Jeg vil bæta því við, að mjer er kunnugt um, að ein verksmiðja, sem keypti síld síðastliðið sumar til bræðslu, ljet vigta mælikerin, og reyndist meðalvigtin eftir sumarið 138½ kg., innihaldið. Hefi jeg þetta eftir Kristjáni Karlssyni bankastjóra, og leyfði hann mjer að nota þessar upplýsingar, og taldi sjálfsagt, að bræðslusíld væri vegin. Þá hefir og hv. 3. landsk., sem í fyrra rannsakaði þetta mál í sambandi við rannsókn á byggingu síldarverksmiðju, komist að þeirri niðurstöðu, að 1 mæliker hefði inni að halda 128–138 kg. síldar. Mun því eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, vera hæfilegt að ákveða þetta 135 kg.

Skal svo ekki orðlengja þetta. Vona jeg að hv. deild fallist á, að rjett sje að setja þessi lög, og mæli jeg með því fyrir hönd n., að svo verði gert.