12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í C-deild Alþingistíðinda. (3398)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Við 1. umr. þessa máls lýsti jeg að nokkru frv. þessu og tilgangi þeim, sem því er ætlað að ná. Finn jeg því ekki ástæðu til þess að taka það upp nú, sem jeg sagði þá, og það því síður, þegar enginn ágreiningur var í nefndinni um einstakar greinar frv., nema hvað einum nefndarmanna þótti refsiákvæðin of ströng. Sjerstaklega þótti honum lágmarksupphæð sektanna vera of há. Höfum við því til samkomulags flutt brtt. á þskj. 303, enda getur um margskonar afbrot verið að ræða, og er því ekki nema rjett að hafa sektarákvæðin sem rýmst. Eins telur nefndin rjett að færa ákvæðið um rjettindamissi skipstjóra fyrir fyrsta brot úr tveimur árum niður í eitt ár.

Einn nefndarmanna hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og mun hann að sjálfsögðu gera grein fyrir honum. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar.