12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í C-deild Alþingistíðinda. (3404)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Halldór Steinsson:

Þessi síðasti lestur hv. 4. landsk. (JBald) var alveg óþarfur. Hann hefir engin rök fært gegn því, sem jeg hjelt fram áðan. Jeg tók það þá fram, að bæði jeg og aðrir hefðu haldið því fram, að grunur hvíldi á íslenskum togurum um landhelgibrot. En hitt er annað mál, að þau brot eru ekki sönnuð. Og jeg stend við það, að í greinargerðinni er komist að orði eins og það væri sannað, að íslenskir togarar væru yfirleitt sekir um landhelgibrot. Þetta átel jeg. (JBald: En þessi 30 skip!). Það er alveg rjett, að jeg álít að 20–30 skip hafi veitt í landhelgi við Snæfellsnes á umræddum tíma. En jeg get ekki sannað það. Hitt get jeg vottað, að varðskipin fengust ekki til að koma vestur fyr en seint og síðar meir, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli til stjórnarinnar.