12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í C-deild Alþingistíðinda. (3405)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Jón Þorláksson:

Eins og vænta mátti, gat hv. flm. (IP) ekki svarað höfuðaðfinslum mínum við frv., þeim, að leggja sömu sekt við brotum á formlegum reglum um skeytaútbúnað og því, að nota loftskeytin til stuðnings ólöglegum veiðum í landhelgi. Þetta er ekki hægt að verja, þótt hv. þm. reyndi að snúa sjer frá því með því að segja, að jeg hefði ekki lesið fyrirsögn frv. 2. gr. frv. stendur þó þar, og hún segir ekki það, sem frv. ætti að fela í sjer, sem sje, að banna að nota loftskeytin í þágu ólöglegra veiða. En hv. þm. talar alveg eins og í frv. stæði ekkert annað en reglur um eftirlitið. Það hefir að vísu ekki alveg farist fyrir að setja þetta í frv., því að það kemur í aukasetningu aftan við aðalmálsgreinina í 2. gr. Í 5. gr. er svo fyrir mælt, að skipstjóri skuli sæta refsingu fyrir að brjóta hin settu ákvæði um afgreiðslu og tilhögun skeyta.

Tilgangurinn með þessari löggjöf á að vera sá, að koma í veg fyrir misnotkun loftskeyta til stuðnings ólöglegum veiðum, en fyrirsögn frv. skiftir engu máli. Við slíkri misnotkun á að leggja háar sektir. Hitt er ósiður, hvar sem á því bólar í löggjöfinni, að blanda saman refsiákvæðunum fyrir slíkt athæfi og smá yfirsjónum viðvíkjandi forminu, sem annaðhvort stafa af vangá eða hirðuleysi. Það er sjálfsagt að leggja einhverjar sektir við, ef slíkar yfirsjónir koma fyrir, en það nær engri átt, að ekki sje gerður greinarmunur á þessum tveim sektarákvæðum. Eins og frv. er orðað að öðru leyti, falla línuveiðarar undir þessa löggjöf, jafnskjótt og þeir hafa öðlast loftskeytatæki, og er þeim þó heimilt að veiða hvar sem er í landhelgi, svo að ekki geta skeyti þeirra á milli verið til stuðnings ólöglegum veiðum.

En það sem jeg viti mest er það, að sömu sektir liggja við því, ef t. d. gleymist að senda eftirrit af loftskeyti og ef um raunverulega misnotkun er að ræða.

Það þarf að leggja háar sektir við því, ef sannað er, að um misnotkun sje að ræða, og hefir mjer aldrei dottið í hug að neita því, svo framarlega sem menn vænta nokkurs árangurs af lögunum og að tilgangur frv. náist. Það er því talað alveg út í hött hjá hv. frsm. að segja, að jeg vilji ekki láta setja neinar reglur um eftirlitið. Þá get jeg tekið mjer ljett þau ummæli, er hv. frsm. sagði í hita, að jeg álíti fáa menn hæfa til þess að semja frv., aðra en mig. Þetta eru auðvitað staðlausir stafir. Jeg álít mjög marga færari til þess að semja lög en jeg er, en hitt verð jeg að játa, að fram að þessu man jeg ekki eftir neinu frv. frá hæstv. dómsmrh., sem hefir verið sæmilegt að frágangi. Og það óheppilega er, að þótt hann fái nú útungunartæki til þess að unga út þessum frv. sínum, þá er honum svo ósýnt um að velja þau, að það er engra umbóta fyrir hann að vænta á þessum missmíðum.

Jeg get ekki kannast við það, að það sje nokkur leikaraskapur í minni afstöðu til þessa máls. Jeg hefi tekið það fram, að jeg er fús á að samþ. löggjöf til þess að afstýra notkun loftskeyta til hjálpar ólöglegum veiðum, en jeg álit, að það sje ekki rjett í lögunum að gera engan greinarmun á broti á því, sem lögunum er ætlað að hindra og yfirsjónum í formsatriðum, sem kannske eru óviljaverk. Jeg álít að hv. frsm. hafi svo mikið af almennri skynsemi, að hann hljóti að viðurkenna, að rjett sje að hafa sektirnar tvennar, og æði mismunandi. Ef hinsvegar sektarákvæðin eru höfð ein, verður að hafa lágmark sekta svo lágt, að það geti talist hæfileg refsing á hinum minni brotum á settum reglum, sem eiga ekkert skylt við misnotkun loftskeyta. Þó álit jeg betra að hafa ákvæðin tvenn, svo að menn freistist ekki til þess að misskilja þetta þannig, að lágmarkið eigi einnig við aðalbrotið.

Þá sagði hv. flm., að ef reglunum yrði fylgt, mundu skeytin ekki verða misnotuð. Jeg ber nú ekki sama traust til þessa og hann. Jeg held, að engar reglur geti að fullu fyrirbygt misnotkun, en þar fyrir er rjett að setja skynsamlegar reglur, því að ætíð er eitthvert gagn að þeim. — Afstaða mín til frv. er sú, að jeg mun fylgja því til 3. umr. í þeirri von, að það verði kannske eitthvað lagfært. Hinsvegar tel jeg það svo ambögulegt, að jeg treystist eigi til að gera þær brtt. við það, er þyrfti, til þess að koma því í sæmilegt horf, enda stendur það hv. flm. næst.