12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í C-deild Alþingistíðinda. (3407)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg skal ekki tefja umr. lengi, aðeins svara hv. 3. landsk. (JÞ) nokkrum orðum.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði ekki getað mótmælt því, að það ákvæði vantaði í frv., að banna notkun loftskeyta til þess að bæta aðstöðu togaranna til landhelgisbrota. Jeg get ekki gert að því, þótt þetta hafi farið fram hjá hv. þm. og hann hafi hætt að hlusta, og nenni jeg ekki að endurtaka þau andmæli mín.

Þá mintist hv. þm. á það, sem er líka rjett, að þetta frv. tekur einnig til þeirra línuveiðara, er hafa loftskeytatæki. Hjelt hv. þm. víst, að þetta stafaði af vangá, því að hann getur ekki skilið það, að enda þótt íslenskir línuveiðarar megi veiði í landhelgi,

geta þeir aðstoðað togara við að komast undan refsingu, ef því er að skifta. Vona jeg nú, að hv. þm. sjái, að þetta er með vilja gert.

Að síðustu vildi hv. þm. láta líta svo út, sem hann væri fylgjandi stefnu frv., og að ekki bæri mikið á milli hans og okkar flm. Einkum þótti honum sektarákvæðin of há í mörgum tilfellum. En hvers vegna kemur hv. þm. ekki með brtt. um þetta? Það er honum þó innan handar, ef honum væri nokkur alvara. Hv. þm. var að mælast til þess, að við flm. færum að breyta frv. — Jeg hefi enga tilhneigingu til þess að leika við hv. þm„ þetta er ekkert nema fyrirsláttur hjá honum, því að í raun og veru er hann á móti frv.

Hinsvegar mundi jeg taka til athugunar, ef hv. þm. bæri fram brtt. við frv., enda þótt jeg hafi litla trú á því, að þær yrðu til bóta.

Jeg get ekki verið að svara hv. þm. þessu spaugi, er hann kom með úr „Speglinum“. Hann hefir þá orðið lítið til þess að gamna sjer við, er hann leitar þangað.