29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í C-deild Alþingistíðinda. (3418)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Ólafur Thors:

Hæstv. dómsmrh. var svo óvenju spakur í þessari síðustu ræðu sinni, að jeg get ekki fengið af mjer að deila hart á hann. Hann á það skilið, að jeg launi honum með einhverju þessa geðstillingu, sem annars keyrir ekki altaf úr hófi.

Hæstv. dómsmrh. ávítaði mig fyrir það, að jeg væri altaf á hverjum fundi að brjóta þingsköp. Jeg vil þá benda á það, að hann veit ekkert um þetta, því að hann hefir ekki sjest hjer í deildinni síðan á eldhúsdag, og er yfirleitt mjög sjaldsjeður gestur hjer, svo að hann getur ekki dæmt um framkomu mína nje óþingleg ræðuhöld af eigin sjón og reynd. Á eldhúsdaginn sagði hæstv. dómsmrh. um mig, að jeg væri ósvífinn götustrákur og úrþvætti. Þetta hefi jeg aldrei sagt um hann, og á hann það þó ekki síður skilið en jeg. Jeg vildi aðeins benda honum á þetta, þegar hann ávítar mig fyrir óþinglega framkomu og ljót orð. Hann ætti sjálfur að líta sjer nær, því að götustrákur og úrþvætti eru ekki þingleg orð, en þau fjellu þó úr hans eigin munni.

Hæstv. ráðh. hjelt því fram, að jeg hefði neitað því í fyrra, að ástæða væri til þess að hafa eftirlit með loftskeytasendingum togaranna. — Það er nokkuð til í því, en þá benti jeg hæstv. ráðh. jafnframt á það, að hann hefði vald til þess að framkvæma þetta eftirlit án nýrra laga. Hann hefir ekki notað sjer það vald, og það bendir einmitt á, að hann trúi sjálfur ekki þeim óhróðri um íslenska útgerðarmenn og sjómenn, sem hann er þó að breiða út og halda á lofti. Hæstv. ráðh. álítur eftirlitið ástæðulaust, og er jeg honum þar sammála.

Það er ekki rjett hjá hæstv. ráðh., að jeg hafi tafið þetta mál í fyrra við umræður eða í n., og þannig orðið þess valdandi, að það dagaði uppi. Sannleikurinn var sá, að þó að hv. 1. þm. S.-M. gerði það af góðsemi sinni að flytja frv. fyrir hæstv. ráðh., þá þótti honum skömm að því. Honum þótti áreiðanlega skömm að því, en sýndi þó þá viðleitni, að reyna að koma því í skammlítið horf. Hann varð líka feginn að þurfa ekki að verja það hjer í deildinni, og það var hann, sem rjeði því, að það kom aldrei frá nefndinni, því að hann þorði ekki með það inn í deildina eins og alt var í garðinn búið. Umræðurnar í fyrra voru sprottnar af því, að sóma Alþ. var misboðið, þegar ráðh. varð þess valdandi, að svona illa undirbúið mál var lagt fyrir það. Og það var sannarlega nóg, að ráðh. skyldi gera þetta, þó að Alþ. ryki ekki til og samþykti frv.

Það er oflof að segja, að þetta frv. sje skammlaust, en það er skárra heldur en í fyrra, og það er mjer að þakka. Hæstv. dómsmrh. játaði þetta líka beinlínis, þó að hann nefndi hvergi mitt nafn, og við 2. umr. skal jeg sýna fram á og sanna, að það litla vit, sem nú er í frv., það er að mestu leyti frá mjer.

Í fyrra voru viðurlögin við ólögmætum skeytasendingmn ákaflega afkáraleg og vitlaus samkvæmt því frv., sem þá var á ferðinni. Nú hefir hæstv. dómsmrh. látið lagfæra það dálítið, og hefir hann lært þar af mjer. Og það er miklu fleira, sem hann hefir lært af mjer, en jeg get ekki verið að telja það upp, því að jeg nenni ekki að líta á umræðurnar um þetta frá í fyrra, og man satt að segja ekki, hvað var vitlausast af þeirri vitleysu, sem hann hjelt þá fram.

Hæstv. ráðh. var undrandi yfir því, að jeg skyldi leyfa mjer að finna að því, að þetta mál var tekið hjer til umræðu á undan öðrum málum, sem ekki eiga upp á pallborðið hjá honum. Jeg vil þá benda hæstv. ráðh. á það, að þetta mál er komið frá hv. Ed. og er búið að ganga þar gegnum þrjár umr., en hjer er neðar á dagskránni frv. til 1. um dóm í vinnudeilum, til 2. umr., og það á alveg eftir að fara til hv. Ed. Meðferðin á því máli er orðin hreinasta hneyksli, og mjer þætti gaman að heyra hæstv. dómsmrh. reyna að halda því fram, að það sje minna virði heldur en þetta auðvirðilega frv., sem hjer er verið að ræða um.

Jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði í minni fyrri ræðu, að jeg er hræddur um, að þetta frv. sje borið fram til þess að vekja grun í garð þeirra manna, sem hafa atvinnu af togaraútgerð, bæði útgerðarmanna og sjómanna. En þó að þörf væri á löggjöf um þetta efni, þá á hún ekki að vera í þessum búningi. Ef svo skyldi vera, að loftskeytin væru notuð á óheiðarlegan hátt, þá má það auðvitað ekki viðgangast. Um það ætla jeg ekki að dæma, en vil láta vinna að því, að hreinsa þessar tvær stjettir af þeim grun, sem hæstv. dómsmrh. breiðir út og elur á. Þegar frv. kemur í nefnd, þá skal jeg reyna að sníða af því mestu vankantana.