29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í C-deild Alþingistíðinda. (3422)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi aðeins leiðrjetta þann misskilning hjá hv. 2. þm. G.-K., að það sjeu tvær stjettir, útgerðarmenn og sjómenn, sem sjeu grunaðir um að nota loftskeytin á óheiðarlegan hátt. Ágúst Flygenring var bæði útgerðarmaður, íhaldsmaður og þm. Hann talaði einungis um útgerðamenn, og taldi þá eina seka. Hann sagði, að skipstjórunum væri skipað af útgerðarmönnum inn í landhelgina, og ef þeir hlýddu ekki, þá væru þeir reknir.

Það er öllum kunnugt, að hásetarnir ráða engu um það, hvar skipið er á hverjum tíma, enda dettur engum í hug að halda slíkum firrum fram, nema hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh: Jeg talaði um sjómenn). Samkvæmt málvenju eru „sjómenn“ sama og „hásetar“. Hinir hafa sín ákveðnu stjettarheiti. (ÓTh: Hafa ekki skipstjórar og stýrimenn stjettarheiti?). Að dómi Ágústs Flygenrings eru útgerðarmennirnir einir sekir og ekki einu sinni skipstjórarnir. (ÓTh: Má jeg bóka það eftir hæstv. ráðherra, að hann telji skipstjórana ekki seka?) Samkvæmt skýringu hr. Flygenrings eru skipstjórarnir þvingaðir til að veiða í landhelgi með greinilegum fyrirskipunum útgerðarmanna. Sektarábyrgðin er þess vegna bersýnilega mest á þeim, sem upphafinu veldur að hinu óleyfilega verki. Hv. 2. þm. G.-K. hefir sjálfur viðurkent það í verkinu. Þegar einn af togurum Kveldúlfs var tekinn í landhelgi, datt hv. þm. ekki í hug að láta skipstjórann rýma. (ÓTh talar við 1. þm. Reykv.). Jeg vildi mælast til þess, að hæstv. forseti vildi sjá svo um, að hv. 2. þm. G.-K. varni mönnum ekki máls með skrafi sínu hjer í deildinni. (Forseti hringir ákaft). (ÓTh: Mjer þykir þetta koma úr hörðustu átt, þar sem hæstv. dómsmrh. gengur hjer um eins og grár köttur með hvíslingar og samtöl undir rœðum manna). (Forseti hringir enn). Vill ekki einhver þingsveinn leiða hv. 2. þm. G.-K. til sætis? Annars mun jeg fresta máli mínu, þangað til útsjeð er um, hvort hæstv. forseti er settur af eða ekki.

Þá var hv. 2. þm. G.-K. að tala um það, að hann hefði átt töluverðan þátt í löggjafarstarfseminni undanfarið. Hann hefði getað sparað sjer að fara út í þá sálma. Hann hefir hjer á þingi helst verið kendur við eitt frv., sem þó náði ekki fram að ganga, enda var þetta höfuðmál hans kallað „litla og ljóta frv.“