18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í C-deild Alþingistíðinda. (3434)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Ólafur Thors:

Frv. þetta hefir ekki verið athugað í nefnd. Ásamt síldareinkasölulögunum var það afgreitt á einum stundarfjórðungi, umræðulaust, gegn mótmælum eins nefndarmanns, en að mjer fjarstöddum.

Frv. er gamall kunningi þdm. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) bar það fram á þinginu í fyrra, en þó vissu allir, að hæstv. dómsmrh. var höfundur þess, enda játaði ráðherrann það.

Ráðherrann hjelt því þá fram, að það væri „opinber leyndardómur, að loftskeytin væru fyrst og fremst sett á togarana vegna landhelgiveiðanna.“ Þessa misnotkun átti nú að girða fyrir. Helstu ráðin voru þau, að útgerðarmenn skyldu afhenda dómsmálaráðuneytinu lykil að sjerhverju dulmáli, er notað væri í skeytaskiftum milli skips og lands, og síðan skyldu útgerðarmenn og skipstjórar gefa drengskaparvottorð á þar til gerð eyðublöð um það, að ekkert fælist í skeytunum, er leiðbeint gæti til landhelgiveiða, og það alveg jafnt, hvort skeytin voru frá þeim sjálfum eða öðrum.

Þung viðurlög voru lögð við, ef út af var brugðið, og skyldi sá sæta sektum, eigi minni en 15 þús. kr. og alt að 50 þús., er sendi skeyti, sem ekki væri skrifað á hið fyrirskipaða eyðublað, og gilti þetta jafnt, þótt um björgunarskeyti væri að ræða.

Þessi voru aðalákvæði hins viðfræga „ömmu“-frumvarps, er lagt var fyrir síðasta þing, en ekki náði lögfestu.

Í byrjun þessa þings ljet ráðherrann bera frv. þetta fram að nýju, og nú í Ed. Frv. var mikið breytt frá því í fyrra. Ráðherrann hafði sýnilega mentast talsvert af viðræðunum við hv. þm. Vestm. og mig á síðasta þingi, enda var þess engin vanþörf. Ýmsir ágallar frv. frá síðasta þingi voru því niður feldir, en þó var enn mjög ávant að vel færi.

Ánægjulegustu — eða ef til vill heldur broslegustu — sinnaskifti ráðherrans koma fram í 1. gr. þessa nýja frv. Hún hljóðar þannig:

„Öll botnvörpuskip skulu hafa fullkomin loftskeytatæki“.

Og í greinargerðinni stendur:

„Loftskeytin eru skipunum nauðsynleg vegna almennrar viðskiftastarfsemi og til að minka slysahættu fyrir skipverjum“.

Er þá uppljóstað þeim „óttalega leyndardómi“, að ráðherrann trúir sjálfur ekki þeim „opinbera leyndardómi“, sem hann hefir þó stagast á í mörg ár, „að loftskeytin sjeu fyrst og fremst sett á togarana vegna landhelgiveiðanna“. Nú er skylda að búa skipin þessum tækjum. Það sýnir viljann. Hitt sýnir svo aftur getuna eða getuleysi lagasmiðsins, að honum hefir láðst að skipa svo fyrir, að loftskeytatækin skuli starfrækt.

Þá hefir því verið breytt frá í fyrra, að útgerðm. og skipstj. „sverji fyrir alla“. Nú gefur sá, er skeyti sendir, drengskaparvottorðið.

Ennfremur gilda nú refsiákvæðin ekki, þegar um björgun ræðir.

Alt er þetta til bóta, svo langt sem það nær.

Samkv. 3. gr. frv. er forstjóri skyldaður til að afhenda ráðuneytinu lykil að sjerhverju dulmáli, sem notað er í skeytaskiftum milli skips og útgerðarinnar, eða „milli íslenskra veiðiskipa innbyrðis“, og samkv. 5. gr. sæti útgerðarstjóri sektum, 8–30 þús. kr., ef út af er brugðið.

Þessu verður að breyta vegna þess, að það er ekki á færi útgerðarstjóra að hafa gát á, hvaða dulmál skipin nota sín í milli. Það eru skipstjórarnir, sem þessu ráða. Skyldan og ábyrgðin á því að leggjast á þá.

Í lögunum eru engin fyrirmæli um að ráðuneytinu verði afhentur lykill að öðru dulmáli en því, sem notað er við skeytasendingar milli útgerðarinnar og skips, eða skipa innbyrðis. Allir aðrir en „útgerðin“ geta þá notað dulmál, sem ráðuneytið hefir ekki lykil að. Þetta er mjög vanhugsað. Þeir, sem á annað borð hafa einhverja trú á fyrirmælum frv., hljóta að vilja lagfæra þetta.

En aðalásteitingarsteinninn er þó 6. gr. frv. í henni er dómsmálaráðh. heimilað að setja svo sterkan hemil á notarjett loftskeyta, að skeytatækin verða nær gagnslaus útgerðinni, ef aðeins útgerðarmaður er grunsamlegur um misnotkun loftskeyta að dómi ráðherrans.

Þessi fyrirmæli brjóta venju og anda íslenskra laga og eru með öllu ótæk. Við skulum bara hugsa okkur, að vanstiltur maður eða jafnvel hálftryltur geðofsi, yrði dómsmálaráðherra. Við skulum skýra myndina og taka sem dæmi, að ráðherrann væri líka hefnigjarn með afbrigðum. Við þetta skulum við svo bæta þeim möguleika, að ráðherranum væri í nöp við einhvern útgerðarmanninn. Hvað þá? Hálftryltur geðofsi, hefnigjarn og heiftúðugur í garð útgerðarmanna, — og hver þorir að taka ábyrgð á því, hverskonar gallagripur getur orðið dómsmálaráðherra? Hvílíkt vald fær ekki 6. gr. slíkum manni? Loftskeytatækin kosta 10 þús. kr. Starfrækslan árlega 6–8 þús. En ráðherra getur sagt við útgerðarmann: Jeg grun þig um græsku, þú mátt engin skeyti senda, nema jeg orði þau fyrir þig.

En eins og kunnugir best þekkja, fara oft mörg skeyti á dag milli skips og útgerðarmanns, mörg síðari hluta dags, en þá er ráðuneytið lokað.

Fáist nú þessi firra leiðrjett, og 3. og 5. gr. breytt svo, að vit sje í þeim, álít jeg það sem eftir er meinlausa og gagnslausa skriffinsku, sem aðeins vitnar um fálm og lausatök höfundarins. Get jeg ekki gert hæstv. dómsmrh. til geðs að bregða fæti fyrir slíka lagasetningu, því það er nú orðið löngu bert, að tilgangur ráðherrans er fyrst og fremst sá, að nota þetta mál til að níða mig og aðra útgerðarmenn. Alvöruleysi hans í málinu er löngu orðið opinbert. Því í fyrsta lagi hefir ráðh. að óbreyttum lögum rjett til alls þess eftirlits með skeytasendingum, sem frv. mælir fyrir um, og í öðru lagi ber öll meðferð málsins á þingi, bæði í fyrra og í ár, vott um, að ráðh. lætur sig einu gilda um afdrif málsins. Í fyrra var frv. lagt fyrir neðri deild og komst aldrei lengra en til 2. umr. í ár kemur málið frá Ed. Og enn er því með öllum hætti stofnað í voða, svo að jafnvel í dag, síðasta dag þingsins, fæst ekki málið rætt nema með afbrigðum, og það þó ekki fyr en svo er áliðið dags, að komið er að fundarlokum. Og það er sjálfur fyrverandi flm. frv., sem er látinn halda 1½ tíma ræðu um annað mál, til þess að koma á stað löngum umræðum, umræðum sem svo aftur girtu fyrir að „amma“ næði lögfestu.

Yfirleitt verður ekki sjeð, að dómsmrh. sje nokkur alvara með málið, ef til vill af því, að honum þykir minkun að því, hversu frv. er breytt frá því hann lagði það fyrir þingið. Það er nú kannske von, því af hans frv. er nú ekkert eftir óbreytt nema 2. gr. Og þegar jeg nú skil við hæstv. ráðh. á þessu þingi, með þakklæti fyrir, að hann þó tók á sig rögg og kom hingað í neðri deild á þessum síðasta degi þingsins, þá minnist jeg þess, hve oft ráðherrann talar um, að afskifti mín af löggjöfinni sjeu lítil, þ. e. a. s., hve fá frv. jeg semji og beri fram. Finst mjer vel við eiga, að jeg kveðji hann nú með hamingjuósk í tilefni af þeim sigri, sem hann hefir unnið á þessu sviði í þeim þrem „stórmálum“, sem hann hefir talið sín hjartans mál á undanförnum þingum, nefnilega Byggingar- og landnámssjóð, þar á ráðherrann fyrirsögnina og eina grein. Ömmu-frumvarpið, þar er nú orðið eftir ein grein, en aftur á móti ekki fyrirsögnin, og loks kvikmyndafrumvarp hans, þetta mesta keppikefli hans og hinna sósíalistanna, 14 greina frumvarpið svokallaða. Í því stendur nú fyrirsögnin, en engin grein. Slíkan sigur hafa fáir unnið, enda fáir verðskuldað. Ann jeg ráðherranum sigursins og endurtek hamingjuósk mína.

Áður en jeg lýk máli mínu, langar mig að víkja nokkrum orðum að „afa“. Eins og menn muna, bar hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) frv. þetta fram á þingi í fyrra. Frv. var þegar nefnt „amma“ en flm. „afi“. Eftir 1. umr. hjer í deildinni var frv. lengi hjá sjútvn., en þar fer hv. flm. (SvÓ) með formensku. Eftir langa mæðu var málið, 29. febr., afgreitt frá nefnd, og bar þá flm. sjálfur fram svo víðtækar breytingar við sitt eigið frv., að af 9 greinum frv. lætur hann 1. og 2. gr. óbreytta, breytir 3., 4. og 5. gr. orði til orðs, en 6., 7., 8. og 9. gr. fellir flm. alveg niður.

Með þessari „uppyngdu ömmu“ bjó svo „afi“ í mánaðartíma, en í marslok sýnist „afi“ hafa verið orðinn leiður á sambandinu, því þá ber hann enn fram brtt. við brtt. við sitt eigið frumvarp. En ekki tókst þó hönduglegar en svo, að til þess að komast hjá að bera fram brtt. við brtt. við brtt. við sitt eigið frv., ljet flm. „prenta upp“ síðustu brtt. sína. Var uppprentunin 3 sjálfstæðar brtt. og því gerólík frumprentun, sem aðeins var ein brtt.

Eftir allar þessar breytingar — alt þetta skraut og skart, — hafði nú „amma“ prýkkað talsvert, en þó kom fljótt í ljós, að hún hafði ekki þolað hnjaskið, og varð endirinn sá, að hún veslaðist upp og fjekk hægt andlát í faðmi „afa gamla“.

„En orðstír deyr aldrei“, og hefir sjálfur vörður siðgæðis skrifað hugnæm og fögur minningarorð eftir „ömmu“. Mannorð „ömmu“ er því tvímælalaust og óflekkað, hvað sem „afa“ liður.

Eftir lát „ömmu“ í fyrra fór „afi“ hnípinn heim til átthaganna, sligaður af þunga sorgarinnar. Það er því síst að undra, þótt gleði hans væri takmarkalaus, er hann í þingbyrjun nú í ár frjetti, að „amma“ væri endurborin í Ed. Með óþreyju taldi „afi“ dagana og beið hingaðkomu hennar, og strax og hún rak hjer inn höfuðið vafði hann hana örmum og fór með hana heim á höfuðból sitt, sem sjávarútvegsnefnd kallast. Þar geymdi „afi“ „ömmu“ eins og soldán felur uppáhalds ástmey sína, og fengum við yngri mennirnir alls ekki að sjá hana. Aftur á móti munu eldri vinir „afa“ eins og hv. 2. þm. Árn. (MT) hafa fengið að líta á „ömmu“, en þó aðeins í fjarlægð, eða í gegnum gler. Koma hjer fram mannlegir eiginleikar „afa“, ástin og afbrýðisemin samfara varfærni hins reynda manns.

Nú, en eins og oft gengur, eftir fyrstu fagnaðarfundina, í lok hveitibrauðsdaganna, minti hið hverflynda karlmannshjarta „afa“ á sig að nýju. Og nú vill hann fyrir hvern mun fara að breyta „ömmu“ aftur. Það er nú fyrirsjáanlegt, að enn andast „amma“ á þessu þingi, er í rauninni nú á þessari stundu í andarslitrunum. Hin langa ræða „afa“ í morgun var einskonar líkræða yfir „ömmu“, og hæstv. ráðh. og jeg erum burðarkarlar, — höldum í hanka.

Helst vildi jeg nú að allir legðust á sveif um að halda líftórunni í „ömmu“. Annars verður þetta sami sorgarleikurinn á hverju ári. „Afi“ og „amma“ leika ásta-„rullurnar“. Hæstv. dómsmrh. leikur þrjótinn, sem spillir innræti „ömmu“ og lætur hana fara með hverskyns óhróður um mæta menn, svo sem mig og mína líka, og endirinn verður svo altaf sá, að „amma“ tekur andvörpin í mjúkum ástarfaðmi hins iðrandi syndara, „afa gamla“. — Deildin grætur, en við, sem þekkjum mátt ástarinnar og trúum framhaldi lífsins og endurburði „ömmu gömlu“ — við þerrum tárin, göngum rólegir niður á símastöð og sendum vinum okkar skeyti og segjum „ömmu líður vel.“