18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í C-deild Alþingistíðinda. (3435)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) mun í ræðu sinni í dag hafa túlkað tilfinningar sínar og sinnar stjettar. Ræða hans bar vott um gremju og sársauka yfir því, að þjóðfjelagið skuli nú ætla að taka í taumana og hafa aðhald að vissri sviksemi, sviksemi, sem gert hefir landinu bæði skaða og skömm og kastað skugga á íslenskt rjettarfar.

Síðan fer hinn útgerðarmaður deildarinnar á stúfana og hlakkar yfir því, að það líði kannske enn þá partur af ári, áður en þetta mál nær fram að ganga, því að sýnt þykir, að það nái ekki fram á þessu þingi. Er það sök útgerðarmanna þeirra, er hjer eiga sæti, sem hafa tafið málið með óþarfa málæði í nefnd og á fundum, en það eitt sannar nauðsyn þessa máls. — Það er víst, að ef t. d, sauðaþjófar mynduðu með sjer stjettarfjelag, myndu þeir bannsyngja alt aðhald hreppstjórna og sýslumanna.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) gerði gys að því, að í þessu frv. er ætlast til þess, að varðskipin og loftskeytastöðin taki sýnishorn, eftir því sem hægt er, af þeim skeytum, er fara á milli lands og skipa. Hv. þm. heldur víst, að skipin hans megi tala eins og þau vilja. Veit hv. þm. ekki, að ef skip hans eru við Englandsstrendur, er sett ofan í við þau, ef þau eru með óþarfa skraf? Eða heldur hv. þm., að þeir menn, sem eiga hluti í togurum, sjeu hafnir yfir lögin?

Nú viðurkenna ýmsir gegnir flokksmenn hv. þm., eins og hv. þm. Snæf. o. fl., að þegar togarar sjeu að veiðum í landhelgi, t. d. við Snæfellsnes, þá náist þeir hjer um bil aldrei, vegna þess að þeim eru send viðvörunarskeyti frá útgerðarmönnum, sem eiga þessa þjófa. Þetta er almannarómur, og engir aðrir en hlutaðeigendur neita þessum staðreyndum. Sekt þeirra er slegið fastri, hvort sem þeir tala í reiðitón eða gleðitón. Og engir menn áfella togaraeigendur meira en einmitt þeir menn, sem hafa kvartað undan því hjer í hv. deild, að aðfarir þeirra skuli látnar óátaldar.

Þá sagði hv. þm., að það hefði ekkert að segja, að banna dulmál; það sje altaf notað. Eftir hans skilningi er þá einhverju að leyna. Ekki þarf neitt dulmál til þess að segja skipunum, að nú eigi þau að fara til Englands, eða austur á Selvogsbanka. Hv. þm. gaf það í skyn með orðum sínum, að dulmálið yrði notað, eins þótt það væri bannað, og var helst að heyra, að hann gæti ætlað hlutaðeigendum að brjóta drengskaparheit sitt. Ekki gerir hv. þm. mikið úr drengskap sjálfs sín og sinnar stjettar.

Þá kom hv. þm. að því, að hann hafi heyrt þess getið, að Snæfellingar hafi hætt við að senda kærur út af togurum, vegna þess að þeir hjeldu að það þýddi ekki. — Ef svo er, er það vissulega af ódugnaði frá þeirra hálfu. Stjórnin getur ekkert að því gert. (MG: Það var aðeins spurt að því, hvort kærunni hafi verið stungið undir stól). Kæran hefir ekki komið í stjórnarráðið.

Þá áleit hv. .3. þm. Reykv. að taka ætti skipstjórarjettinn af skipstjórum, sem brotlegir yrðu við þessi lög. Þess er ekki getið í frv., heldur á aðeins að taka af þeim rjett til þess að senda eftirlitslaus skeyti, ef það sannast, að þeir hafi brotið lög þessi. Það kemur svo þráfaldlega fyrir, að þeir menn, sem á einhvern hátt hafa orðið brotlegir við lögin, fá ekki full rjettindi og eru hafðir undir eftirliti. Hv. andstæðingum er ekki verst við þetta ákvæði, heldur að haft sje eftirlit með þeim, sem grunur fellur á, en ekki hafa beint brotið. Þetta ákvæði vilja þeir fella niður, af því að þeir halda, að það geti komið að gagni.

Þá talaði hv. 2. þm. G.-K. um það, að það væri sjerstaklega á kvöldin, sein senda þyrfti skeyti til skipanna. Já, það er vitað, að þegar dimmir, eru skipunum send skeyti, að nú sje varðskipið þarna og þarna, nú sje þeim óhætt að læðast inn í landhelgina. (ÓTh: Við fáum helst að nota loftskeytastöðina á kvöldin). Jeg trúi því vel, að ekki sje hægt að senda skeytin um miðjan dag, þá koma þau ekki að tilætluðum notum.

Þegar „Þór“ fór með hæstv. forsætisráðh. upp í Borgarnes, og lá þar í 2 daga, kom bunki af skeytum á ýmsum dulmálum, og það var vitanlega

vegna þess, að varðskipið var á ákveðnum stað. Slíks eru fleiri dæmi. Og fjandskapur útgerðarmanna við þetta mál er aðeins sprottinn af því, að þegar skeytaeftirlit er komið á, geta þeir ekki jafn auðveldlega stýrt skipum sínum úr landi inn í landhelgina.

En er það nokkur dauðasynd, þótt þjóðfjelagið fái að ráða, hvaða form er á skeytum, sem send eru úr landi og eftirlit haft með þeim? Það verður ekki hægt að fá þjóðina til þess að trúa því, að það sje nein ósvinna.

Þjóðin getur ekki látið sjer lynda að kaupa strandvarnaskip fyrir 800–900 þús. kr., og starfrækja þau fyrir ¼ milj. á ári, og láta svo þessa loddara senda skipum sínum skeyti um allar hreyfingar varðskipsins; nú sje það fyrir austan, eða vestan, og því sje óhætt að fiska fyrir suðurströndinni. Þetta ástand getur ekki gengið til lengdar.

Það er sama, þótt hv. 2. þm. G.-K. hælist um yfir því, að hafa að þessu sinni getað tafið málið, það fer svo að lokum, að hætt verður að leika þennan leik í landhelginni. Áður en langt um líður tekur þjóðfjelagið í taumana og segir við landhelgiþjófana: „Hingað og ekki lengra“.