18.03.1929
Efri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í C-deild Alþingistíðinda. (3456)

72. mál, einkasala á saltfiski

Jón Þorláksson:

Þetta frv., er hjer er á ferðinni, er marg niðurkveðinn og uppvakinn endurvakningur frá fyrri þingum, er jeg tel ekki minstu líkur til að nái fram að ganga, eins og Alþingi er nú skipað.

Jeg lít því svo á, að það sje aðeins til þess að tefja tíma þingsins, að fara nú að vekja upp umræður um þetta mál. Þess vegna mun jeg ekki fara inn á ástæður hv. flm. (JBald) fyrir frv., enda kom hann ekki með neinar nýjar ástæður, er mæli með því, en allar þær er áður hafa verið bornar fram, hafa verið marghraktar áður.

Jeg læt þetta því nægja til þess að gera grein fyrir því, að jeg sje ekki ástæðu til að greiða frv. atkv. til 2. umr.