27.03.1929
Efri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í C-deild Alþingistíðinda. (3479)

103. mál, menntaskóli og gagnfræðaskóli í Reykjavík og Akureyri

Jón Þorláksson:

Jeg skil vel, hvers vegna það hefir farið svo fyrir hæstv. dómsmrh., að hann hefir ekki treyst sjer til að lagfæra þá ágalla á Akureyrarskólanum, er tilfinnanlegastir voru hjér. Og af þeim ástæðum, að mentaskólinn þar fyllir ekki það hús, sem þar er, (Dómsmrh.: Og þarf ekki að fylla það) er gagnfræðaskólanum hleypt þar inn sem sjerstakri deild, — mjög svipað og nú er um skólann í Reykjavík. Hæstv. ráðherra vildi ekki kannast við, að það væri rjett hjá mjer. nema að litlu leyti, að stærð skólans hjer samsvaraði ekki bekkjatölunni, vegna skiftingar lærdómsdeilarinnar í máladeild og stærðfræðideild og taldi, að stærðfræðideildin mundi fyllast, af því að skólinn væri aðgengilegri eftir en áður, fyrir menn, sem hefðu gengið í gegnum einhvern alþýðuskóla. Jeg held nú ekki, að það muni fylla stærðfræðideildina, af því að það er svo um þetta stærðfræðideildarpróf, að þó að það sje að vísu nauðsynlegt að halda því uppi, er ekki neina mjög svo þröngt takmörkuð tala af stúdentinn með þeirri mentun, sem þörf er fyrir í landinu. Málamentun gefur stúdentum rýmra svigrúm til að leita sjer starfssviðs í lífinu. Aðaltilgangur stærðfræðideildarinnar er að undirbúa stúdenta til sjerfræðináms, sem aðeins fáir stúdentar geta stundað. Jeg hygg því, að annaðhvort sje það rjett hjá mjer, að þetta samsvari hálfri annari deild, eða að það verði til þess að þvinga óeðlilega marga inn í stærðfræðideildina, þeim frekar til vandræða eftir á.

Hæstv. ráðherra mintist á heimavistir og taldi, að ekki væri unt að koma upp heimavistum á skólalóðinni, nje heldur stækka húsið. En jeg er sannfærður um, að með góðum vilja er mjög hægt að fá heimavistir, sem yrðu í sambandi við skólann, kannske ekki í sama húsi, en að minsta kosti á skólans lóð.

Út af því, sem hæstv. ráðherra sagði um aldurstakmarkið, skal jeg geta þess, að jeg hefi ekki hugsað mjer, að frv. gerði ráð fyrir heimavistum fyrir gagnfræðaskólann. Nemendur gagnfræðadeildarinnar eru venjulega svo ungir, að ekki er tiltækilegt að senda þá að heiman. Annars skal jeg geta þess, að að mínu viti er aldurstakmarkið fyrir Mentaskólanemendur hin mesta fjarstæða, og blettur á núgildandi ákvæðum. Það nær engri átt, að meina mönnum aðgang að Mentaskólanum, þó að þeir sjeu einu eða nokkrum árum eldri en hinir, sem þeir eiga að fylgjast með. Í minni skólatíð var að vísu til eitthvert ákvæði um þetta efni, en það var altaf veitt undanþága frá því. Niðurstaðan varð sú, að innan um okkur, unga og óþroskaða stráka, voru altaf þroskaðir piltar, sem höfðu áreiðanlega hin bestu áhrif á skólalífið og þá mentun, sem skólinn ljet okkur í tje. Jeg vil segja þetta, til þess að láta hæstv. ráðherra vita, að jeg að minsta kosti álít, að ekki eigi að vera að hanga í neinum bókstafsböndum um það, að allir nemendur í bekk sjeu því nær jafngamlir.