10.05.1929
Efri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í C-deild Alþingistíðinda. (3482)

103. mál, menntaskóli og gagnfræðaskóli í Reykjavík og Akureyri

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg held að hv. frsm. hafi verið of yfirlætislaus, þegar hann settist niður. Jeg er viss um, að hv. d. hefir ekki þreyst á skýringum hans um þetta frv. og brtt. n. Jeg get lýst yfir því, að jeg álít meðferð hv. n. ekki eingöngu í alla staði vinsamlega við frv., heldur hafi hv. n. í mörgum efnum fært það til betri vegar, án þess að gera nokkra tilraun til að breyta megingrundvelli þess. En þó að jeg búist við að greiða atkvæði með brtt., er ekki þar með sagt, að jeg telji þar allar nauðsynlegar. Allir nefndarmenn hafa engu að síður unnið að því með mikilli kostgæfni að leysa þetta mál, og hið flókna samband á milli alþýðufræðslunnar í Reykjavík og á Akureyri. Jeg geri ráð fyrir, að sá þáttur frv., sem lýtur að alþýðufræðslu, muni á sínum tíma verða uppistaðan í því, sem gert verður í þeim efnum.

Jeg býst ekki við, þar sem orðið er svo áliðið þingtímans, að frv. þetta komist lengra en til Nd. Eins og tekið er fram í aths. við frv., urðu þeir skólamenn, sem fengnir voru til að undirbúa frv., nokkuð síðbúnir, svo að komið var langt fram á þing, þegar það hafði gengið í gegnum þann hreinsunareld, sem við þurfti. Jeg ætla ekki að fara út í minni háttar atriði, sem jeg er ekki alveg sammála hv. n. um, einkum þar sem fullvíst er, að frv. nær ekki fram að ganga í vetur. Þær umræður, sem nú verða um málið, lít jeg á eins og ljettir fyrir hv. d. fyrir næsta vetur.

Út af 1. brtt. hv. n. og annari verulegri brtt., sem hv. frsm. hefir lagt mikla áherslu á, um að skólinn í Reykjavík gæti orðið meira en tveir samstæðir bekkir, skal jeg geta þess, að það er mála sannast, að mjer hefir aldrei dottið í hug, að samfærslan hjer ætti að vera meiri en svo, að ef tveir bekkir fyltust, annar af stærðfræðinemendum, en hinn af málanemendum, þá gæti skólinn tekið við því. Nú hefir hv. frsm. haldið því fram, að ekki hafi komið nema 8–15 stærðfræðideildarnemendur á ári. Það er því hugsanlegt, að skólinn hafi á hverju ári tvo fullskipaða bekki, en nemendur skifti sjer þannig, að stærðfræðideildarnemendur sjeu stundum sjer og stundum með máladeildarnemendum. Þetta leiðir auðvitað af sjer dálítinn kostnað fyrir ríkissjóð, borið saman við það, ef eingöngu væri máladeild í skólanum, en skólinn og námið yrði fjölbreyttara, og það er ákaflega mikils virði. Jeg geri ráð fyrir, að með tíð og tíma muni verða reynt að hafa einhverja fjölbreytni á milli máladeildanna í Reykjavík og á Akureyri, svo að menn geti valið, í hvora deildina þeir vilja fara. En jeg ætla ekki að fara út í þá sálma að sinni.

Um heimavistir er kveðið nokkru harðara að orði í tillögum hv. n. en gert er í frv., en þó er svo í hóf stilt, að ríkinu er ekki skylt að leggja fje í slíka byggingu, nema vist sje, að fjárhagur leyfi. Þegar litið er til þess, að stúdentagarðurinn á að kosta 400 þús. krónur, og á þó ekki að vera fyrir nema 40 stúdenta, sjá menn, hversu dýrar slíkar byggingar eru. Þetta heimavistahús mundi að vísu verða haft töluvert ódýrara.

Af þeim breytingum, sem hv. n. hefir lagt til, að nokkru leyti í samráði við forstöðumenn þeirra skóla, sem við eigum nú, vil jeg einkum minnast á skólaráðið. Forstöðumennirnir eru óánægðir með, að skólaráðið geti blandað sjer í hinn daglega rekstur skólans, enda var það ekki tilætlunin. En þar sem hjer er um nýbreytni að ræða, finst mjer sú leið, sem hv. n. vill fara, mjög sanngjörn, nefnilega að prófa með reglugerðarákvæði, hvernig þetta gæfist, hvort það yrði til eflingar fyrir skólann eða ekki. Jeg vil í þessu sambandi benda á, að það er enginn vafi á því, að stofnendur Íslandsbanka hafa með bankaráðinu, sem altaf hefir haft fremur lítið að gera, hugsað sjer, að með því gætu þeir aflað bankanum vinsælda, enda hefir svo orðið. Jeg álít alveg eins gott að hafa þetta frjálsa fyrirkomulag á skólaráðinu, sem hv. n. stingur upp á, því að ef hugmyndin er rjett, getur hún eins vel notið sín í þessum búningi og þó að skólaráðið væri lögskipað.

Að því er inntökuskilyrðin snertir, þá held jeg að þetta sje til bóta frá því, sem er í frv., að minsta kosti á Akureyri. Það tryggir, að nemendurnir verði jafnari og þroskaðri, bæði úr hjeraðinu og bænum. Sjerstaklega má búast við óþroskuðum nemendum úr bænum, ef ekkert væri inntökupróf. — Jeg álít, að meðferð nefndarinnar á þessu frv. muni hafa mikil áhrif á framtíðarskipulag skólanna, þar sem fulltrúar frá öllum helstu stjórnmálaflokkum í landinu hafa orðið sammála um form þess, sem vænta má að búa megi að fyrst um sinn. Þó það verði ekki framkvæmt í ár, þá kemur það á næstu missirum, og mun gilda fyrst um sinn þangað til nýir menn og nýir flokkar taka við völdum.

Þegar þess er gætt, hvað þetta mál hefir verið mikið deilumál, og sjerstaklega minst togstreitunnar um kenslu forntungnanna í Mentaskólanum fyr og síðar, þá er það merkilegt atriði, að fulltrúar allra flokka í mentmn. skuli nú hafa lagt þessi deilumál til hliðar í þinginu, og gert sitt besta til þess að undirbúa þessi lög. Þetta er óvanaleg meðferð og vinnubrögð, þegar um jafn vandasamt og viðkvæmt mál er að ræða, eins og þetta.

Hinsvegar geri jeg ráð fyrir, að þó að hv. Ed. verði sammála um flestar af þessum brtt. nefndarinnar og afgreiði frv. til Nd., þá verði þar staðar numið á þessu þingi, og málinu ekki komið lengra í ár. En á næsta þingi liggur málið ljósara fyrir, vegna þess undirbúnings, sem nú hefir verið gerður. Það er líka ekki ósennilegt, að sá hluti þessa frv., sem snertir gagnfræðaskólann hjer í Reykjavík, geti komið inn í skipulag um skólakerfi fyrir kaupstaðina, og ákveðið að nokkru leyti þær byrjunarlínur, sem farið verður eftir um skipun þeirra skóla sem ákveðið verður á næsta ári.