02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í C-deild Alþingistíðinda. (3494)

105. mál, skattur til sveitarsjóðs af lóðum og fasteignum í Eskifjarðarhreppi

Flm. (Ingvar Pálmason):

Eins og hin stutta grg. frv. ber með sjer, er það flutt samkv. beiðni viðkomandi hreppsnefndar. En vegna þess, að mjer bárust svo seint tilmæli um að bera þetta frv. fram, og þá aðeins símleiðis, hefir mjer ekki unnist tími til að fá nægileg gögn, sem byggja mætti á ítarlega grg. Taldi jeg þó rjett að flytja frv., í þeirri von, að takast mætti að afla allra nauðsynlegra upplýsinga á meðan málið væri hjá nefnd. Vænti jeg því, að hv. deild geti fallist á að lofa frv. að komast til nefndar. Þykist jeg aftur á móti geta lofað því, að það skuli ekki líða á löngu, að frekari og fullnægjandi rök verði færð fyrir málinu. Sje jeg enga ástæðu til, þó að hjer sje um nýbreytni að ræða, að fella frv. frá 2. umr.

Af þessum ástæðum hirði jeg ekki um að hafa þessi orð fleiri, en legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn.