22.04.1929
Efri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í C-deild Alþingistíðinda. (3502)

118. mál, sala á landi Hvanneyrar í Siglufirði

Jón Baldvinsson:

Vegna fjarveru hv. frsm. (IP) vildi jeg fylgja frv. úr hlaði með fáum orðum.

N. hefir lagt til, að frv. yrði samþ. Mál þetta var talsvert rætt hjer í deildinni, í sambandi við sölu á landsspildum til Neskaupstaðar, og þarf því ekki að bæta miklu þar við. Þó er rjett að geta þess, að brtt. sú, er hv. flm. flutti við það frv., er ekki að öllu samhljóða frv. nú. Þar var heimilað að selja jörðina skilmálalaust, nema að undan var skilið lóðarspildur undir opinberar byggingar. En nú á salan ekki að koma til framkvæmda, fyr en jörðin losnar næst úr ábúð.

Jeg get endurtekið það, er jeg sagði er þetta mál var rætt hjer áður, að jeg tel ástæður nú svo breyttar á Siglufirði frá 1921, að jeg tel óhætt að selja bænum þetta. Hugur manna til sölu lóða er nú annar þar í bæ en þá var. Þá mátti búist við, að lóðirnar yrðu jafnóðum seldar. Nú er svo komið, að meiri hluti bæjarstjórnar mun tryggja það, að landið verði ekki látið úr eign kaupstaðarins, hvorki selt eða leigt með þeim kjörum að sölu gengur næst.

Sala Hvanneyrar mun heyra undir dómsmrh. Nú vil jeg spyrja hann, hvort hann vilji ekki setja Siglufirði svipuð skilyrði, er salan fer fram, og Akranesi voru sett í fyrra, er það keypti Garða, þau skilyrði, að landið verði ekki látið aftur úr eign kaupstaðarins. Þegar landið lætur af hendi sínar dýrmætustu eignir, þá ríður á að tryggja það, að þær falli ekki í hendur bröskurum. Nú er það svo, að sögn, að menn fá útmældar lóðir hjá prestinum á Siglufirði, fyrir hlægilegt árgjald, og selja svo aftur afnotarjettinn fyrir tugi þúsunda. Nýlega var mjer sögð sú saga, að maður nokkur hefði fengið sjer spildu útmælda, fyrir 50 kr. árgjald, en afnotarjettinn seldi hann síðan fyrir 14 þús. kr. Er hann hafði það gert, gekk hann til prests og fjekk sjer aðra spildu útmælda og leigða til 50 ára, fyrir lágt árgjald.