22.04.1929
Efri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í C-deild Alþingistíðinda. (3504)

118. mál, sala á landi Hvanneyrar í Siglufirði

Jón Þorláksson:

Jeg get þakkað hv. n. fyrir undirtektir hennar, en síður hæstv. dómsmrh., er vill láta fella frv. án þess að færa aðrar ástæður fyrir því en þær, að það gæti verið ýmislegt, er þörf væri að taka fram um söluna, og ekki stæði í frv. Jeg hefi fylgt þeirri venju í frv., er ríkt hefir hjer um þessi mál.

Jeg vil sjerstaklega taka það fram, viðvíkjandi sjóvarnargarði á Siglufirði, að það hefir jafnan verið fært fram sem höfuð rök fyrir framlagi ríkissjóðs, að hann ætti landið, en það fellur auðvitað burt, þegar landið er selt. Þá verður bærinn auðvitað að eiga það undir fjárveitingarvaldinu, hvort nokkuð skuli til þessa verks lagt eða ekki. Þessi mótbára hæstv. dómsmrh. er því ekki á rökum bygð. Hv. frsm. tók það rjettilega fram, að jeg breytti ofurlítið ákvæðum í frv., frá því, sem brtt. mín var við frv. um sölu á Neslandi. Sú brtt. var sniðin eftir því frv., en við nánari athugun fanst mjer rjett að hafa þetta með ofurlítið öðru móti, sjerstaklega að undanskilja lönd til opinberra bygginga, þar sem skipulagsnefnd er að undirbúa uppdrættina. Jeg álít ennfremur, að salan geti orðið vafningssöm, ef þess er gætt, að prestssetrið er í ábúð, og þegar menn taka tillit til þess, að núv. ábúandi er 67 ára gamall, þá ætti salan að geta miðast við ábúandaskifti.