27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í C-deild Alþingistíðinda. (3507)

118. mál, sala á landi Hvanneyrar í Siglufirði

Jón Jónsson:

Ásamt tveim öðrum hv. þm. hefi jeg leyft mjer að flytja brtt. við þetta frv. Eru þær fljótskýrðar, svo að jeg get verið stuttorður.

Þetta mál hefir áður legið fyrir þinginu, og voru þá skiftar skoðanir um, hvort rjett væri að selja þessa eyri, sem Siglufjarðarkaupstaður stendur á. Þótti ýmsum það viðurhlutamikið, að kasta þessari dýrmætu eign frá ríkinu og tvímælis orka, hvort hún mundi nógu hátt metin, ef seld yrði, með því að verðmæti hennar eykst, eftir því sem bygðin verður meiri og meira líf færist í þá atvinnugrein, sem íbúarnir þar stunda. Okkur fanst tæplega rjett, að kasta þessari dýrmætu eign frá sjer, — nóg er samt búið að gera áður í þá átt, — og því gerum við það að brtt. okkar, að kaupstaðarlóðin verði undanskilin við þessa sölu. Hinsvegar fær bærinn allmikið undirlendi með þessu móti, auk hjáleigunnar Leynings, frammi í firðinum, sem hann fjekk fyrir fáum árum. Okkur fanst of viðurhlutamikið að selja eignina alla, enda væri með því gefið fordæmi um að selja aðrar verðmætar eignir ríkisins, án þess að skilja nokkuð eftir.

Hin brtt. okkar er í tveim liðum. Sá fyrri, um að óheimila bæjarstjórninni að selja þessa eign eða leigja, nema til ákveðins tíma, og sá síðari um, að reglur um leigu á landi bæjarins sjeu staðfestar af atvmrh. Vona jeg að allir geti fallist á, að þessar till. sjeu sjálfsagðar. Það er með öllu óviðeigandi að fleygja svona verðmætri eign frá sjer, upp á þau býti, að eignin verði síðar seld einstökum mönnum og almenningi þannig gert verra fyrir um not af henni. Er því sjálfsagt, að setja reglur um notkun landsins, ef það verður selt. Er þetta í samræmi við till., sem hv. þm. Borgf. (PO) flutti á þinginu 1921, og gerði þá glögga grein fyrir. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.