25.02.1929
Neðri deild: 7. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3523)

32. mál, útvarp

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg býst við, að hv. þm. þyki leiðinlegt nú að hlusta á langar umræður um þau svokölluðu smærri mál á þeim tíma, sem nú stendur yfir (frv. um gerðardóm í vinnudeilum var næst á dagskrá).

Jeg vil um útvarpsmálið taka það fram, að jeg álít það stærra mál en það alment er talið. Jeg skal aðeins fara lauslega yfir sögu þess máls á þingi.

Eins og hv. deild er kunnugt, þá var nefnd skipuð til að undirbúa málið fyrir síðasta þing, þar sem landssímar stjóri var formaður. Nefndin skilaði allítarlegu áliti og frv. samhliða, sem sent var til allshn. Átti jeg sæti í þeirri nefnd þá eins og nú, og það fjell í minn hlut að vera framsögumaður málsins.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara að endurtaka þá ræðu, sem jeg hjelt þá, en vísa aðeins til hennar. Jeg tók það fram, að jeg áliti þetta stórmál, eins og á stendur fyrir íslensku þjóðinni. Þingið var sammála ekki einungis af samþ. lögin með miklum meiri hl., heldur var samþ. þáltill. síðar á því sama þingi frá mjer og hv. 1. þm. Reykv. um að flýta þessu máli sem mest. Jeg mun hafa verið sá í hv. deild, sem hjelt því fastast fram, að útvarpið mætti ekki falla niður, heldur yrði haldið áfram á einhverjum grundvelli. Það er nú svo, að þótt fólk til sveita sje ekki alment kunnugt þessu máli, þá leyfi jeg mjer að fullyrða, að það er almennur áhugi fyrir því um alt land. Sem dæmi skal jeg nefna það, að á fjölsóttum þingmálafundum í Rangárvallasýslu í vetur bar jeg fram tillögu um að skora á stjórnina að hrinda útvarpsmálinu í framkvæmd, og var hún samþ. með öllum atkv. Fólkið finnur, hversu mikið menningarmeðal þetta er, einkum þar sem fátt er um í sveitunum og póstgöngur strjálar.

Þegar fullkomin útvarpsstöð verður reist hjer í Reykjavík, verður meðal annars varpað út þingræðum frá Alþingi. En það mundi áreiðanlega spara þingmönnum óþarfar ræður, þegar þeir vissu, að þeim væri útvarpað. — Á síðasta þingi voru samþ. heimildarlög, þar sem stjórninni var heimilað að taka lán til þess að láta reisa fullkomna útvarpsstöð í Reykjavík. En stjórnin virðist ekkert hafa gert í því máli, og tel jeg hana ámælisverða fyrir það, þótt jeg hinsvegar játi, að hún hefir ýmsar afsakanir í því efni. Af því að jeg hefi dálítið kynt mjer þetta mál, skilst mjer, að þær afsakanir, sem stjórnin hefir í þessu máli, sjeu aðallega tvær. Fyrri afsökunina má telja þá, að ennþá er ekki búið að ganga að fullu frá lántöku ríkisins. Þó skil jeg ekki í öðru en að einhversstaðar hefði verið hægt að fá lán til þessa fyrirtækis. Hin afsökunin er ef til vill öllu veigameiri, sem sje sú, að sá maður, sem er önnur hönd stjórnarinnar í þessu máli, nefnilega landssímastjóri, hefir forfallast sökum veikinda.

Nú vænti jeg, að hæstv. forsrh. taki vel og vinsamlega í þessa tillögu mína og láti byrja á að reisa stöðina svo fljótt sem unt er. Það skal tekið fram, að jeg tel engum tíma mega spilla til þess að stöðin verði komin upp árið 1930, sem jeg tel stórnauðsynlegt.

Jeg vildi óska, að hæstv. stj. tæki það sjerstaklega til athugunar, að gera móttökutækin sem ódýrust, svo að fátæku fólki verði kleift að eignast þau. Heppilegt mundi vera að semja við eitthvert sjerstakt fjelag um að annast öll innkaup tækja. Vil jeg benda sjerstaklega á eitt slíkt fjelag, sem heitir „Telefunken“ og starfar í Þýskalandi með amerísku fje. Hygg jeg, að innkaup hjá þessu fjelagi mundu reynast mjög heppileg. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að svo komnu.