08.03.1929
Neðri deild: 17. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (3530)

54. mál, útflutningur hrossa

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Það er öllum kunnugt, hversu mjög hrossaverð hefir lækkað á síðustu árum og erfiðleikar aukist um útflutning þeirra. Er þó full nauðsyn á, að útflutningurinn haldist, því hann ræður innanlandsverðinu. Ef hross verða ekki flutt út, þá verður ekki haldið uppi verðinu á sláturhrossum innanlands. Það er því brýn nauðsyn á að halda áfram útflutningnum.

Eins og í grg. er tekið fram, þá er útflutningskostnaðurinn stór þáttur í söluverðinu; er flutningsgjaldið 40 kr. á hross. Alþingi hefir ávalt stutt Eimskipafjelagið eindregið; það hefir ávalt fengið þann styrk, er það hefir farið fram á af Alþingi. Jeg sje því ekki annað en að ríkisstj. geti vel farið fram á það við fjelagið, að það lækki nokkuð flutningsgjaldið, sjerstaklega að sumarlagi, því þá hafa skipin oft lítið að flytja. Þá er það og ákaflega bagalegt, að fjelagið neitar stundum að flytja út hross, þegar kemur fram í september. Fyrir því varð jeg sjálfur á síðastl. hausti. Því er það ósk mín og áskorun til stj., að hún beiti áhrifum sínum til þess, að komist verði að hagkvæmari samningum við skipafjelögin. Er jeg vongóður um árangur.

Annar liður till. fer fram á, að stj. beiti sjer fyrir því, að Þjóðverjar lækki nokkuð toll á smáhestum. Fyrir tveim árum dvaldi jeg um hálfs mánaðar skeið í Hamborg og víðar á Þýskalandi. Átti jeg þá tal við ýmsa Þjóðverja kunnuga þessum málum. Töldu þeir það líklegt, að tollurinn fengist lækkaður. En hann er nú allhár, um 40 mörk með dýralæknisskoðun. Sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn var og sammála um það, að líklegt væri, að þetta gæti tekist, og lofaði að hefjast handa í málinu, en því miður hygg jeg, að þetta hafi brugðist. Það hafa verið gerðar tilraunir með sölu hrossa til Þýskalands, og hafa þær gefist misjafnlega. Jeg seldi þangað í fyrra 20 hross á eigin ábyrgð, og gekk það allvel. Öðrum hefir gengið ver. En jeg mundi gangast fyrir fleiri tilraunum, ef tollurinn fengist lækkaður. Og Þýskaland er svo stórt land, að lítið munaði þar um alla okkar hrossaframleiðslu.

Vona jeg svo, að hv. d. sjái ekki ástæðu til annars en samþ. þessa till.