22.02.1929
Neðri deild: 5. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (3538)

9. mál, kaup á áhöldum til þess að bora með eftir heitu vatni

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Eins og grg. till. ber með sjer, er hún fram komin aðallega vegna þess, að nú er verið að reisa mjólkurbú austur við Ölfusá, og þykir eigi örvænt um, að þar kunni að nást heitt vatn úr jörðu. Alt í kringum staðinn, þar sem búið á að standa, og í lítilli fjarlægð eru heitar laugar. Næðist þarna heitt vatn, yrði rekstur búsins mun ódýrari en ella. Borun eftir heitu vatni hefir verið reynd hjer við Rvík og gefist vel, og því er það, að stj. telur æskilegt að fá þessa heimild. Fallist þingið á að veita hana, væri best, að till. yrði afgr. innan skamms, svo að hægt væri að taka tækin til notkunar á vori komanda. Er einn þeirra manna, sem um þetta efni hafa fjallað, nú staddur erlendis, og mætti fela honum að annast útvegun tækjanna.

Jeg tel af ýmsum ástæðum heppilegt, að ríkið eigi slík tæki. Eru líkur til, að þau yrðu talsvert notuð. Beiðni hefir stj. borist frá Akureyrarbæ um, að ríkið veiti aðstoð til að bora eftir vatni hjá heitum lindum, sem þar eru undir fjalli fyrir ofan bæinn. Mundu sennilega fleiri á eftir fara og æskja samskonar tilrauna. Þessi tæki kæmu þá að hliðstæðum notum og skurðgrafan, sem ríkið keypti fyrir nokkrum árum og unnið hefir verið með í Skagafirði, en kemur væntanlega að notum í fleiri hjeruðum síðar meir.

Að svo mæltu legg jeg til, að till. verði vísað til hv. fjvn.