21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3550)

79. mál, vatnsveita á Hvammstanga

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg hefði viljað mælast til þess, að till. þessi yrði ekki rædd svo, að hæstv. fors.- og atvmrh. sje ekki við, því hann þarf að lýsa undirtektum hæstv. stj. um málaleitun þessa. Vil jeg því mælast til þess, að hæstv. forseti fresti umr. þar til hæstv. ráðh. getur verið við. (Forseti: Það hefir verið sent eftir hæstv. forsrh., og er rjett að bíða á meðan). Jeg sje, að hæstv. forsrh. er kominn og held því áfram. Jeg óskaði þess, að hæstv. forsrh. væri við, er umr. færu fram um þáltill. á þskj. 128. Svo er mál með vexti, að íbúar Hvammstanga eru mjög illa settir með neysluvatn. Neysluvatnið verða þeir að taka úr þverársprænu, sem rennur gegnum þorpið, og úr innibrunnum, sem eru hinar mestu gróðrarstíur fyrir sóttkveikjur. Samkv. umsögn hjeraðslæknis er mikil hætta á, að taugaveiki og fleiri sóttir geti gosið upp af þessari orsök. Hefir og taugaveikisfaraldur legið þar í landi. Nú er því svo varið, að Hvammstangaþorpið er ekki nema tæpur helmingur hreppsfjelags þess, sem það er í. Hafa að vísu nokkrir þorpsbúar farið þess á leit, að vatnsveita yrði gerð fyrir þorpið, en ekki fengið því framgengt. Hreppsnefndin hefir að vísu svarað því til, að Hvammstangi mætti gera það sjálfur, en samkv. vatnsveitulögunum ætti hreppurinn að ganga í málið. Hafa því menn á Hvammstanga snúið sjer til mín og óskað eftir því, að vatnsveitulögunum verði breytt. En jeg tel þá aðferð rjettari, að ríkisstj. verði gefin heimild til að láta starfsmenn sína rannsaka skilyrðin fyrir vatnsveitu þarna. Jeg held, að ríkisstj. geti látið sína föstu starfsmenn gera þetta án þess beinn kostnaður verði að. Geri jeg því ekki ráð fyrir sjerstakri fjárveitingu til þess. Starfsmenn ríkisstj. hafa víst oft gert annað eins og þetta án þess sjerstök fjárveiting hafi verið til þess veitt. Hefir og fjárhagsstuðningur verið veittur einstökum hreppum til slíkra framkvæmda. T. d. var heimilað lán úr viðlagasjóði til Húsavíkur árið 1925. Var það af sömu ástæðu og nú er um Hvammstanga. Þar hafði líka legið taugaveiki í landi, og því gert af heilbrigðisástæðum. Þingið veikst vel við þessu þá og heimilaði alt að 40 þús. kr. lán. Hjer er aðeins farið fram á að fá rannsókn fastra verkfræðinga ríkisins eða aðstoðarmanna þeirra. — Jeg hefi fengið svo ófagra lýsingu af vatnsbólunum þarna, að jeg vil ekki fara með hana hjer. Álít jeg þetta, sem jeg hefi sagt, nægilegt til að sanna, að hjer er um þörf að ræða. Hjeraðslæknir leggur í umsögn sinni eindregið með þessu. Vænti jeg því, að hæstv. ríkisstj. taki máli þessu vel. Og óski hún þess, að þáltill. þessi gangi gegnum báðar deildir þingsins, þá tel jeg rjett, að það sje gert.