21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3552)

79. mál, vatnsveita á Hvammstanga

Jón Jónsson:

Mjer finst einkennilegt, að slík till. sem þessi skuli koma fram. Og það bendir ekki til þess, að mikið sje að gera hjer, ef það á að tefja þingið með slíku smámáli. Mjer finst og naumast taka því að láta ríkisstj. fara að sjá um framkvæmd á þessari rannsókn.

Í þorpi þessu eru ekki nema 1–2 hundruð manns. Og aðstaða til að ná vatni þar er ekki erfið, því lindir eru skamt frá þorpinu. Mjer finst því óþarft að blanda þinginu í þetta mál mikið til að ástæðulausu. Nú er svo ástatt, að oddviti hreppsins er búsettur á Hvammstanga. Ætti hann því að geta beitt sjer fyrir framgangi þessa máls og fá því vegna aðstöðu sinnar komið í gegn, ef þorpsbúum væri það áhugamál. En um þann áhuga hefir ekkert heyrst. Hv. flm. segist að vísu hafa fengið brjef þaðan, en frá hverjum, veit enginn. Annað hefir ekki heyrst. Ekki hefir heldur heyrst að sýslufundur hafi neitt hreyft þessu máli. Mátti þó vænta þess, að svo hefði orðið, ef honum hefði þótt hreppsnefndin vanrækja sínar skyldur í þessu efni. Ekki hefir heldur verið snúið sjer til þm. kjördæmisins, sem er búsettur á Hvammstanga. Mjer finst þetta því nokkuð í lausu lofti og eiginlega vera gripið fram fyrir hendur sveitarfjelagsins með þessu. Vil jeg því leggja til, að hvorki þing nje ríki eyði tíma sínum eða starfskröftum í þetta og till. verði látin falla.