21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (3556)

79. mál, vatnsveita á Hvammstanga

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg er ánægður með svör hæstv. forsrh. í síðari ræðu hans. Mjer er sama, þó að hann kalli þessa þáltill. kjósendaveiðar. Hann er ef til vill hræddur um, að eitthvað verði veitt frá sjer. Það má gjarnan vera svo, fyrst þetta er svo gott mál, að kjósendur vilja ljá því fylgi sitt. En í þessu máli hefir ekki verið farið með neinar brellur.

Jeg þarf engu að svara því, sem hv. 6. landsk. sagði. Það var óþarfi af honum að kasta hnútum að brjefritaranum, með því að kalla hann frjettaritara „Morgunbl.“. (JJ: Eru það hnútur?!). Jeg hefi ekki borið fram neinar ásakanir á hendur hreppsnefndinni á Hvammstanga í sambandi við þetta mál; og jeg hefi ekki haft neina ástæðu til þess. Það er hv. 6. landsk., sem það gerir, ef honum finst það ásökunarvert, að hreppsnefndin hefir ekkert gert í þessu vatnsveitumáli. En það geta verið ýmsar ástæður til þess, að þetta mál hefir enn eigi komist í framkvæmd, t. d. kostnaðarspursmálið og ef til vill eigi síður hitt, að meiri hl. hreppsbúa er utan kauptúnsins, og lætur því þetta mál eigi til sín taka. Hinsvegar er það ekki óvenjulegt, að þing og stj. hlaupi undir baggann og styðji slík mál sem þessi, þegar svo stendur á.