28.02.1929
Neðri deild: 10. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (3560)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Eins og fylgiskjalið ber með sjer, er að rísa upp hjer í Reykjavík útgerð lítilla opinna vjelbáta, og munu nú vera um 40 svokallaðir „trillubátar“ gerðir hjer út að staðaldri. Ætti sá útvegur að geta gefist vel hjer eins og annarsstaðar á landinu, þar sem hann hefir verið reyndur, og bera talsverðan arð, enda hefir bátum þessum fjölgað mjög mikið á síðustu árum. Má einnig búast við frekari vexti þessa útvegs, þegar sænsk-íslenska frystihúsið tekur til starfa, því að það mun kaupa nýjan fisk af þessum bátum til frystingar og útflutnings til Mið-Evrópu.

Nú hafa eigendur þessara báta myndað með sjer fjelag, Bátafjelag Reykjavíkur, og er það fyrir beiðni þess fjelags, að till. þessi er fram borin. Formenn báta þessara kvarta yfir því, hve erfitt sje að stunda veiðar sökum yfirgangs innlendra og erlendra togara á grunnmiðum þeim, er bátarnir sækja helst. Þora þeir ekki að leggja línur eða net utan landhelgi vegna þessa yfirgangs, og innan landhelgi kemur það ósjaldan fyrir, að togararnir spilla veiðinni, taka línur og net og jafnvel veiðina líka. Hefi jeg heyrt þessa ýms dæmi, þótt jeg hirði ekki um að greina þau hjer, en þó má þess geta, að íslensku togararnir eru síst betri en hinir erlendu, og mega það firn heita, að slíkt skuli vera algengt fast við höfuðstað landsins. — Nú þegar bátar þessir eru orðnir svo margir sem raun er á orðin, og þeim fer stöðugt fjölgandi, verður ekki annað sagt en að þeir eigi kröfu til þess, að mið þau, er þeir sækja, verði varin. Á Akranesi er, eins og kunnugt er, einnig fjöldi vjelbáta, og gætu þeir þá einnig notið góðs af þessari auknu landhelgisgæslu, því að þeir eru sama yfirgangi ofurseldir nú, þótt ekki hafi verið yfir því kvartað hjer á þingi nýlega nje sjerstakrar verndar verið krafist.

Jeg hafði upphaflega ætlast til, að mál þetta tæki aðeins eina umr., en nú hefir hæstv. forseti ákveðið því tvær umr., og hefi jeg ekkert á móti því.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um málið, en vona, að því verði að umr. lokinni vísað til 2. umr.