22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3581)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Hákon Kristófersson:

Það var fjarri mjer að vilja kasta skugga á frsm. n. með orðum mínum áðan. En eftir hví sem jeg skildi orð hans, þá fanst mjer í raun og veru, að hann leggja mesta áherslu á, að landhelgisgæslan þyrfti að vera svo sjerstaklega góð hjer í Faxaflóa, jafnvel betri en annarsstaðar. Þetta er kannske að mörgu leyti rjett, en jeg leyfi mjer að slá því föstu, að hugir manna stefni yfirleitt í þá átt, að kjörmið landsins, hvar sem þau eru, verði sem allra fyrst friðuð.

Það hefir komið til mála að þrengja hin ytri takmörk landhelgislínunnar við Faxaflóa, og má vel vera, að það sje rjett, því að vitanlega er hann mikil gullkista, en hvort hann tekur nokkuð fram ýmsum öðrum fjörðum, t. d. Breiðaflóa eða Húnaflóa, er jeg hreint ekkert viss um, og er því ekki sjáanlegt, að sjerstaklega brýn nauðsyn sje á því að hafa meiri landhelgisgæslu á honum en hinum flóunum.

Annars var alveg óþarfi fyrir hv. frsm. að fara að pexa við mig; jeg kastaði engum hnútum til hans og gaf því ekkert tilefni til slíkra hluta. Jeg tel, að best sje í þessu máli sem öðrum, að samúðin sje hin ráðandi stjarna, en ekki sundrungin.