03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3586)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Hákon Kristófersson:

Jeg hafði leyft mjer að koma fram með viðaukatill. á þskj. 203. Þykir mjer leitt að þessi till. mín hefir ekki náð samhug hv. n. Jeg skil ekkert í, hvernig á þessu stendur og held, að þetta sje reyndar gert gegn samviskunnar mótmælum. Mjer fanst það líka, að hv. frsm., sem er óvenjulega skýr og skarpur maður, þyrfti óvenjulengi að hugsa sig um til að leita að rökum fyrir orðum sínum.

Till. mín raskar ekki neinu í hinni upphaflegu till. Í a-lið hennar er sunnanverður Breiðafjörður tekinn með, en í niðurlaginu þó tekið fram, að gæslan á Faxaflóa skuli einskis í missa fyrir það. Hvernig getur á því staðið, að hv. frsm. skuli leggja á móti þessu? Og þó segist hann líta till. með velvild! Skárri er það nú velvildin, að leggja það til, að hún sje feld. Það er eins og ef svangur maður bæði annan, sem ætti fult hús matar, um bita til að seðja hungur sitt og fengi það svar: Þú færð ekki neitt, góði minn, en jeg lít á þarfir þínar með velvild! — Þegar þessum sömu ágætu mönnum, er lýst hafa best hinni brýnu nauðsyn á aukinni landhelgisgæslu á vissu svæði, er bent á annað, sem svipað er ástatt um, þá geta þeir ómögulega lagt því liðsyrði. Jeg get þó varla hugsað mjer, að sjóndeildarhringur þeirra nái ekki út yfir Faxaflóa.

Í b-lið till. er farið fram á, að sjerstökum mótorbát sje haldið úti til gæslu fyrir Vestfjörðum, eins og gert hefir verið. Þetta er árjetting um, að hún verði ekki látin falla niður. Jeg vona, að menn sjái, að hjer er kröfum svo í hóf stilt, að það er ekki hægt að gera betur. — Jeg vil geta þess hjer, að af vangá hefir prentast í till. mán. „maí–október“. Þar á að standa maí–desember“. Vil jeg beina því til hæstv. forseta, hvort ekki nægi að leiðrjetta þetta einungis við endurprentun, ef till. verður samþ., eins og jeg vona.

Hv. frsm. sagði, að ef hnýtt væri aftan við hina upphaflegu till. slíkri eða svipaðri till. sem jeg hefi flutt fram, þá gæti farið svo, að hæstv. stj. sæi sjer ekki fært að sinna þessu máli að neinu leyti. Ef þessu væri nú þannig varið, þá vildi jeg síst verða til þess að bregða fæti fyrir svo sjálfsagt nauðsynjamál sem hjer er um að ræða. Jeg gæti með glöðu geði unt þeim allrar þeirrar aðstoðar, sem í mínu valdi stendur, til þess að hrinda máli þessu áleiðis. En að athuguðu máli er það ljóst, að þessi röksemd hv. frsm. á sjer engan stað. Það er með öllu óhugsandi, að brtt. mín geti á nokkurn hátt orðið til þess að vinna málinu tjón í heild. Ef nauðsyn er fyrir hendi og ef ríkisstj. hefir áhöld og aðstöðu til, þá getur hún vitanlega ekki neitað einstökum hjeruðum um liðsinni í þessum efnum. Þessi brtt. gerir alls ekki ráð fyrir, að dregið sje úr gæslunni við Faxaflóa, svo að jeg get varla skilið, hvað hefir komið hv. n. til þess að leggjast á móti henni. Hv. frsm. benti á, að landhelgisgæslan ykist bráðlega, þegar fleiri skipum yrði bætt við, og er þetta auðvitað rjett athugað, og þegar sú aukning gæslunnar er komin í kring, getur vel farið svo, að mín till. verði óþörf.

Jeg skal taka undir það með hv. frsm., að gæslunni ber að beina þangað, sem hennar er mest þörf. Sömuleiðis skal því játað, að rjett sje að taka tillit til Faxaflóa hvað þetta snertir, en hinu vil jeg neita, að þar sje brýnni þörf aukinnar gæslu en t. d. fyrir Vestfjörðum. Líf þúsunda manna er bygt á því, að aflinn bregðist ekki þar á fjörðunum, og afkoma alls fjöldans er því mjög háð, að miðin sjeu varin nokkuð til hlítar. Reynslan hefir sýnt það, að aflinn bregst ekki verulega, svo framarlega að togararnir komast ekki inn á firðina. En það þarf ekki nema 1–2 togara til þess að gereyðileggja veiðiskapinn á örskömmum tíma.

Hv. frsm., sem jeg skal fúslega láta njóta þess sannmælis, að hann talaði ekki með þjósti nje óvild um þetta mál, enda hefði samviskan algerlega bannað honum það, ljet svo um mælt, að hann sæi sjer ekki fært að ljá minni till. fylgi. Það er næsta hart að heyra slíkt frá manni, sem jeg aldrei hefi þekt nema að sanngirni í afskiftum öllum og till. En það, sem felst í minni till., er sjerstaklega það, að slá varnagla fyrir því, að ef stærri varðskipin geta ekki komið því við að annast gæsluna um þessar slóðir, svo að viðunandi sje, þá beri ríkisstj. að sjá svo um, að smærri bátum verði falin gæslan, þegar og þar sem þörfin er brýnust. Yrði það að sjálfsögðu á líkan hátt og verið hefir við Faxaflóa að undanförnu, og erum við flestir sammála um, að gefist hefir vel. Aðalatriðið er að skapa aðhald gegn útlendum og innlendum togurum, sem altaf eru fyrir innan línu, ef þeir þora og halda sig óhulta. Jeg felst fullkomlega á það, að það sje nauðsynlegt að verja Faxaflóa, en jeg vil þó ekki ætla, að þörfin sje þar svo miklu brýnni en víða annarsstaðar, að leggja beri alla áherslu á gæslu hans, þótt önnur mið verði útundan. Annars skal jeg ekki áfellast hv. frsm. nje láta óvingjarnleg orð falla í hans garð, þrátt fyrir undirtektir hans. Og jeg þykist ekki þurfa að tala margt um jafnsjálfsagða till. og hjer liggur fyrir. Hún mælir með sjer sjálf. Meðal annars mælir það ekki lítið fyrir henni, að hv. frsm., sem kunnur er að sanngirni, tók mjög nærri sjer að „verða að“ mæla á móti till. Hann var jafnvel svo langt kominn á sanngirnisleiðinni, að hann sagði, að meðnm. sínir gætu og myndu ef til vill hafa nokkra sjerstöðu til þessa máls. (ÓTh: Sumir hverjir). Já, jeg vænti að heyra við nafnakall, að hv. 2. þm. G.-K. muni ekki láta sitt „já“ vanta, og hinu sama býst jeg við af fleirum hv. þdm. Og satt að segja býst jeg fastlega við jákvæði alls þorra deildarinnar. Jeg hefði að vissu leyti gaman af að sjá deildina fella þessa sjálfsögðu till. með nafnakalli, og jeg vil skjóta því til hæstv. forseta, að hann láti nafnakall fram fara um till., að umr. lokinni.