03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (3591)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ræða hv. þm. Barð. gefur mjer ekki mikið tilefni til andsvara, þar sem hann komst aldrei inn að kjarna málsins. Um gæsluna á Breiðafirði er það að segja, að allir vilja styðja að því máli, og mun henni altaf verða haldið uppi eins og sjálfsagt er. Um það, hvað gerist í veiðistöðvunum á Vestfjörðum, hefi jeg góðar heimildir. Jeg hefi oft átt tal um þessi mál við þá menn, sem hafa haft þarna landhelgisgæslu á hendi ár eftir ár, og ýmsa aðra, sem eru þarna fult svo kunnugir og hv. þm. Barð. Hann hafði það eftir mjer, að ekki væri þörf á aukinni gæslu þarna nema um mánuðina ágúst–október. Jeg komst ekki svo að orði, heldur sagði jeg, að þá væri einna helst von togara á þessum slóðum. Jeg hefi það eftir gæslumanni, sem hefir starfað þar í 3 ár, að það er hreinasta tilviljun, að togari fari inn á firðina fyr en fer að dimma nótt. Sá maður er þó eins kunnugur og hefir eins mikið vit á þessu eins og hv. þm. Barð., sem býr langt uppi í sveit og kemur sjaldan nærri sjávarsíðunni. Hv. þm. Barð. er þó að burðast við að gera sig breiðan yfir minni vanþekkingu í þessu efni, en jeg hefi minn kunnugleika frá sjómönnunum, sem þarna starfa, og ættu þeir að vita eins vel og bóndi langt uppi í landi. Hann hefir fráleitt meiri þekkingu á þessu en sjómenn, sem vinna á skipunum og fylgjast vel með, hvar skipin halda sig á þessum og þessum tíma. Þó að ef til vill sjeu dæmi til þess, að togarar fari inn á Höskuldseyjarflóa, þá eru þeir þar ekki að staðaldri, og jafnvel af hreinni tilviljun, því að þeir fá þar altaf lítinn afla. Breiðifjörður er líka svo að botnlagi, að þar er ilt að finna sæmilegt togpláss. Jeg hefi sjálfur verið á togara, sem leitaði tímunum saman að bletti á Breiðafirði til þess að kasta vörpu. Ef hv. þm. Barð. vill skilja orð mín rjett, þá er ekki ástæða fyrir hann að ætla, að jeg vilji draga úr gæslunni á þessu svæði; jeg tók það skýrt fram, að svo er ekki. Jeg get bara ekki felt mig við, að hv. þm. skuli koma með þetta í tillöguformi í sambandi við mál, sem er með öllu nýtt. Það er engin hætta á, að hinni venjulegu gæslu verði ekki haldið áfram, en hv. þm. Barð. var í lófa lagið að koma með þetta við fyrri umr., svo n. gæti athugað það. Nú er miklu meiri óleikur gerður með því. Má vel vera, að þetta sje alt gert með ráðnum hug og í þeim tilgangi, að þáltill. sú, sem hjer liggur fyrir, falli úr sögunni.