06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3615)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Hv. 1. þm. Reykv. færði það sem rök fyrir hækkun dýrtíðaruppbótar á laun embættismanna, að þau væru ekki sambærileg við þau launakjör, sem síðasta Alþingi ákvað. Á þinginu í fyrra varð nokkur ágreiningur um það, hvernig þessi laun ættu að vera, en jeg var ekki í þeirra flokki, sem þá vildu hafa hærri launaupphæðina. Mjer kemur ekki undarlega fyrir sjónir, þótt í þetta sje vitnað. Jeg þykist vita, að þeir, sem þá voru með hækkuninni, hafi haft það á bak við eyrað, að geta síðar vitnað í þessa launahækkun til þess að rökstyðja, að rjettlátt væri að hækka laun embættismanna.

Jeg geri ráð fyrir því, að á sama hátt verði síðar vitnað í launahækkun barnakennara, ef hún nær fram að ganga, en jeg skal ekki segja, hvort menn vilja lúta svo lágt að vitna í laun yfirsetukvenna. Þessar þrjár launalagabreyt. nema samtals á þriðja hundr. þús. kr., og þó er það ekki nema lítill hluti af því, sem ýmsir vilja stefna að.

Hv. 1. þm. Reykv. hefir sjálfur borið fram frv. um 17 stiga hækkun, en vill nú gera sig ánægðan með aðeins 6 stiga hækkun. Það er í raun og veru svo lítill hluti af því, sem hv. þm. fer sjálfur fram á og telur rjettlátt, að mjer finst, að það eitt ætti að nægja til þess að hann greiddi atkv. á móti þessari till., því að hún felur í sjer svo litla uppbót á laun embættismanna, að hún getur engin veruleg áhrif haft á afkomu þeirra. Þetta hlýtur hv. þm. að kannast við.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að festing gjaldeyrisins væri til þess að halda við dýrtíðinni í landinu. Þetta er svo fjarri öllu lagi, sem frekast er unt. Það er engin ástæða til þess að ætla, að dýrtíðin fari eingöngu eftir því, hvaða mynteining gildir í landinu, en verðlagið verður að vera í fullu samræmi við gildi peninganna. Á meðan gengið fór hækkandi, var ósamræmið langmest, en samræmið eykst, því lengur sem krónan stendur óbreytt í sama gengi. Það þarf ekkert að vera meiri dýrtíð fyrir því, þótt krónan gildi 80 eða 50 aura, eða hvaða gildi hún nú kann að hafa.

Hv. þm. spurði mig að því, hvaða afstöðu jeg myndi hafa tekið til þess frv., sem hann flutti hjer á þingi um dýrtíðaruppbót á launum embættis- og starfsmanna ríkisins. Jeg skal játa það, að jeg hefði ekki frekar verið með því heldur en þessari breyt., sem er af því, að jeg tel ekki hægt að komast hjá endurskoðun á launalöggjöfinni, og sömuleiðis af því, að jeg hefi altaf talið það rangt að vera að grauta í þeirri löggjöf, sem vitanlegt er, að verður endurskoðuð í náinni framtíð.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta; jeg býst við, að kannske allir hv. þdm. hafi tekið afstöðu til þessa máls og að það breyti ekkert afstöðu þeirra, þótt umr. sje haldið áfram um lengri tíma.